151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

kosningar til sveitarstjórna.

272. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Hér er kominn gamall kunningi sem fjallar um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, gengur út á það að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum úr 18 árum í 16. Málið hefur verið lagt fram margoft áður, á 146. löggjafarþingi og endurflutt á 147. löggjafarþingi og á 148. löggjafarþingi var það lagt fram af fulltrúum allra flokka. Þá komu fram þau sjónarmið að of skammur tími væri til stefnu til að undirbúa breytinguna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem voru það sama ár og 3. umr. var því ekki lokið en þó náði það svo langt.

Forseti. Frumvarpið er afskaplega einfalt í raun, aðeins fjórar greinar. Í 1. gr. er nefnt að í stað orðanna „18 ára“ komi: 16 ára.

2. gr. Á eftir orðunum „Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr.“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: er lögráða.

3. gr. Í stað orðanna „allir kjósendur“ í b-lið 19. gr. laganna kemur: þeir sem eru kjörgengir.

Í 4. gr. er síðan gildistökuákvæði.

Það er mitt mat — og ég hygg að margir sem tóku þátt í umræðum á 148. löggjafarþingi eða fylgdust með því þegar málið náðist úr nefnd og inn í 3. umr., en var, eins og ég kom inn á áðan, ekki lokið, geti tekið undir það — að helsta röksemdin á móti málinu, þeirra sem ekki gátu fellt sig við að það yrði samþykkt, í það minnsta sú háværasta og sú sem tók lengstan tíma hér í ræðustól, hafi akkúrat verið sú að það væri of knappur tími til að gera þessa breytingu rétt fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Nefndin hafði lokið umfjöllun sinni og tekið á þeim faglegu álitaefnum sem fylgdu þessu máli. Þess vegna er það mitt mat, forseti, að stærstur hluti vinnunnar sé að baki. Við búum svo vel að hafa farið vel í málið á sínum tíma, bæði þegar hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var fyrsti flutningsmaður og leiddi umræðuna hér í þingsal og eins í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég var framsögumaður málsins, og höfum búið okkur í haginn til að vinna málið fljótt og örugglega.

Frumvarpið fjallar um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna, það er tiltölulega einföld lagabreyting. Þeir fjölmörgu umsagnaraðilar sem komu að málinu á sínum tíma eiga sínar umsagnir og geta að sjálfsögðu uppfært þær en umræðan í hv. nefnd ætti að vera okkur öllum í fersku minni og eins umræðan í þingsal.

Ég sagði að málið væri gamall vinur okkar hér. Ég fór aðeins yfir hvenær það hefði verið flutt áður. En áður en það var fyrst flutt á 146. löggjafarþingi höfðu ýmis skyld þingmál verið lögð fram. Ég ætla að nefna, forseti, tvö mál þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, annars vegar þingsályktunartillögu Hlyns Hallssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur á 133. löggjafarþingi og hins vegar frumvarp Árna Þórs Sigurðssonar á 141. löggjafarþingi. Þetta mál hefur nefnilega fylgt Vinstrihreyfingunni – grænu framboði býsna lengi en ekki verið bundið við hana eingöngu því að á 144. löggjafarþingi lögðu hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Kristján L. Möller og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fram svipað mál sem var svo endurflutt af Katrínu Jakobsdóttur og Árna Páli Árnasyni á 145. löggjafarþingi.

Það er því heilmikil vinna, forseti, að baki þessu máli. Greinargerðin bólgnar við hverja framlagningu. Í nefndaráliti með breytingartillögu frá 148. löggjafarþingi er lagt til að málið verði samþykkt. Okkur er ekkert að vanbúnaði að einhenda okkur í umræðuna. Það eru mýmörg rök fyrir því að stíga eigi þetta skref. Það er freistandi að sökkva sér ofan í greinargerðina og fara djúpt yfir þau rök sem í henni eru. Ég ætla hins vegar að standast þá freistingu, vísa í greinargerðina og leyfa mér að segja að í mínum huga snýst þetta einfaldlega um hvort við höfum vilja til að gera þessa breytingu eða hvort einhver okkar vilja einfaldlega alls ekki hagga við kosningaaldrinum og lækka hann niður í 16 ár. Það kemur þá í ljós og ekki er lengur hægt að skýla sér á bak við það að við séum í tímaþröng.

Ég vona að öll þessi vinna allra þeirra þingmanna, bæði núverandi og þeirra sem áður voru á þingi, sem að þessu máli hafa komið í öll þessi ár, og eins sú vinna sem unnin var í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og má lesa um í nefndarálitinu sem vísað var til, verði ekki til einskis og heldur ekki sú mikla vinna sem umsagnaraðilar lögðu á sig, bæði í umsögnum sínum og eins í komum fyrir nefndina og umræðum í samfélaginu. Ég vona að við nýtum þessa umræðu til einhvers og lækkum kosningaaldurinn í sveitarstjórnarkosningunum niður í 16 ár.