151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

börn á biðlistum.

[13:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að minnsta kosti 1.200 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Fjölmennasti biðlistinn er hjá Þroska- og hegðunarstöð þar sem 600 börn bíða greiningar. Við látum börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman. SÁÁ er að reyna að aðstoða börn sem þurfa að búa hjá fólki sem býr við áfengis- og fíkniefnavanda eða aðra geðræna sjúkdóma. Þar er pottur verulega illa brotinn og ríkisstjórnin stingur hausnum í sandinn til að sjá ekki vandann og leysir hann þar af leiðandi ekki eins og henni ber. Börn eiga aldrei að fara á biðlista eftir meðferð við geðrænum sjúkdómum eða öðrum sjúkdómum, aldrei. Álag á börn og fjölskyldur þeirra er oft á tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega, líkamlega og fjárhagslega. Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga framleiðir ríkið öryrkja á færibandi, nú og inn í framtíðina. Þá hefur komið í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist, sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega, eins varðandi ADHD, kvíða, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda og námserfiðleika barna. Því er það fáránlegt að ekki sé brugðist við biðlistavandanum. Bið eftir talþjálfun talmeinafræðinga er 17–36 mánuðir. Lengst er biðin á landsbyggðinni. Fjöldi barna á biðlista eftir talþjálfun er frá 300–900 á stofum á höfuðborgarsvæðinu.

Er engin framtíð hjá þessari ríkisstjórn, hæstv. heilbrigðisráðherra, fyrir börn á biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu? Eða hver er stefnan? Að sjö ára barn fái nauðsynlega þjónustu þegar það verður orðið tíu ára gamalt? Það vantar um 180 milljónir hjá talmeinafræðingum til að dekka þá þjónustu, en við höfum 180 millj. kr. fyrir mat handa minkum og við höfum 500 milljónir fyrir einkarekna fjölmiðla þar sem stærstur hluti fer til forríkra eigenda. (Forseti hringir.) Eru ekki til peningar til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ekkert barn þurfi að bíða á biðlista?