151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

staða ferðaþjónustunnar.

[13:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég þekki þau mál mætavel sem hv. þingmaður nefnir hér og hef verið í samskiptum við fulltrúa þessara fyrirtækja, við SAF og fleiri aðila. Af því að hv. þingmaður segir að viðkomandi aðilar hafi dregið stutta stráið og enginn hafi staðið með þeim, ég man ekki nákvæmt orðalag hv. þingmanns, er það nú þannig að ráðuneyti mitt tekur engar ákvarðanir í þessu tilliti. Ég hef komið þessum upplýsingum á framfæri. Ég hef spurt spurninga. Ég hef kallað eftir skýringum þegar kemur að því að skýrt sé hvort samræmi sé til staðar á milli hópa, hvernig meðalhófs sé gætt og hvort hægt sé að koma til móts við þessi fyrirtæki án þess að ógna árangri þegar kemur að veirunni eða að áhættumat liggi fyrir, þ.e. hversu mikil áhætta það er að taka á móti þessum hópum.

Ég hef ekki skynjað annað frá þessum fyrirtækjum en að þau séu í raun tilbúin til að mæta öllum mögulegum kröfum sem við gerum til að tryggja að ekkert smit fari um víðan völl og smitrakning sé þá möguleg. Ég er þeirrar skoðunar að ganga þurfi úr skugga um að það sé skýrt samræmi á milli þess hvaða hópar hafa fengið að koma og athafna sig og skapa verðmæti innanlands í gegnum þessar undanþáguheimildir, eins og t.d. vinnusóttkví, og þess þegar við horfum til svokallaðrar búbluferðamennsku, þ.e. ef við tökum á móti fólki inni í búblu sem það fer eiginlega aldrei út úr og er svo gott sem í einhvers konar smitgát á ferðalagi sínu. Ákvarðanir eru teknar hjá landlæknisembættinu hvað þetta varðar og (Forseti hringir.) ég vonast auðvitað til þess að við getum fundið út einhverjar almennar reglur sem fólk getur síðan mátað sig við þannig að fyrirsjáanleiki sé í því hvað hægt er að gera hér á landi.