151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

staða ferðaþjónustunnar.

[13:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Svör sóttvarnayfirvalda hafa verið á þá leið að m.a. þurfi að vinna frekara áhættumat. Mat sóttvarnayfirvalda er þá einfaldlega á þá leið að of mikil áhætta sé að taka á móti þessum ferðamönnum. Ég vil hér eftir sem hingað til að við séum með eins almennar reglur og við getum, séum með almenn skilyrði og almennar kröfur sem fyrirtæki og fólk geti þá mátað sig við og komið hingað og athafnað sig á grunni þeirra reglna sem við setjum. Ég er þeirrar skoðunar að vel sé hægt að tryggja fyllsta öryggi með því að taka á móti þessum hópi fólks á grundvelli þeirra reglna sem almennt gilda hér. Ég er þeirrar skoðunar að þau tilvik og mál hafi gengið vel þar sem við höfum tekið á móti fólki sem er hér í ýmsum atvinnurekstri. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða það alvarlega að taka slík skref vegna þess að þetta eru miklir efnahagslegir hagsmunir og tryggja þarf mjög meðalhóf þegar kemur að þessum málum.