151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

dagbókarfærslur lögreglu.

[13:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Það eru jarðskjálftar og það er kórónuveira og það eru rúmlega 26.000 manns á atvinnuleysisskrá. Þegar þannig háttar finnst mörgum kannski ekki ástæða til að gera veður út af mannfagnaði á Þorláksmessu með þátttöku fjármálaráðherra og símtölum dómsmálaráðherra daginn eftir til lögreglustjóra til að fá skýringar á því af hverju ráðherra hafi verið nefndur í dagbókarfærslu lögreglunnar.

Ég hef heyrt Sjálfstæðismenn tala um storm í vatnsglasi í þessu sambandi og mætti kannski allt eins tala um golu í freyðivínsglasi — algjört smámál, segja menn. En er það? Málið snýst um sjálfstæði lögreglunnar. Það snýst um valda- og virðingarröð. Það snýst um að allir borgarar sitji við sama borð gagnvart lögunum. Dagbókarfærslur lögreglunnar, þær hafa stundum þótt ganga ansi nærri fólki í viðkvæmri stöðu á viðkvæmum stundum. En það er ekki fyrr en þegar ráðherra er á opinberum stað þar sem talið er að sóttvarnareglur hafi verið brotnar og þess er getið í dagbókarfærslu lögreglu að ráðherra sér ástæðu til að taka upp tólið. Af hverju? Ráðherra hefur sagt að fjölmiðlar hafi mikið haft samband við sig og hún hefur talað um persónuverndarsjónarmið, óháð áliti Persónuverndar sem ekki sá hér nein brot. Voru fjölmiðlar að spyrja ráðherrann út í það, út í persónuverndarsjónarmið og þessa dagbókarfærslu út frá persónuverndarsjónarmiðum? Er hæstv. ráðherra reiðubúinn að deila með okkur hinum hvað henni og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fór á milli í þessum símtölum?