151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

dagbókarfærslur lögreglunnar.

[13:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá var fjölmiðlum mest umhugað á aðfangadag að fá að vita um verklagsreglur lögreglunnar um það hvernig svona dagbókarfærslum er háttað. Skil ég það rétt? Að mínu viti höfum við hér ákveðna valda- og virðingarröð; formaður stjórnmálaflokks og leiðtogi ríkisstjórnar er grunaður um brot á sóttvarnareglum sem settar eru af sjálfri ríkisstjórninni og það kemur fram í dagbók lögreglunnar sem hefur afskipti af umræddri samkomu. Dómsmálaráðherra fær að vita um hvern er að ræða, hringir tvívegis í undirmann sinn, lögreglustjórann, til að fá skýringar á því að sagt hafi verið frá ætluðu broti fjármálaráðherrans. Og þau símtöl voru ekki skráð í ráðuneytinu, eins og reglan er þó um öll slík formleg og óformleg samskipti, teljist þau mikilvæg, eins og þar stendur. Hvers vegna? (Forseti hringir.) Voru þetta ekki mikilvæg samskipti? Og ef þau voru ekki mikilvæg, af hverju var þá verið að hringja í fólk klukkan hálffimm á aðfangadag?