151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[13:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér hvaða þættir það eru í samfélaginu sem eru mikilvægastir með tilliti til öryggis þjóðarinnar. Hvað þarf að vera í lagi? Jú, svo sannarlega er til margs að líta. En þegar öllu er á botninn hvolft er auðvitað það mikilvægasta aðgangur að matvælum fyrir alla landsmenn, að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt. Ég tel það liggja í augum uppi. Þess vegna er svo mikils um vert að við framleiðum sem mest af matvælum okkar sjálf hér innan lands, að við höfum getu, tæki og kunnáttu til okkar eigin matvælaframleiðslu. Þannig verður ekki rætt um þjóðaröryggi nema í tengslum við getu okkar til að tryggja matvælaöryggi, einfaldlega vegna þess að við búum hér úti á miðju Atlantshafi, fjarri öðrum þjóðum, og ýmislegt getur brugðist, eins og við erum sífellt minnt á, t.d. af völdum náttúruhamfara, átaka, farsótta eða orsaka af fjárhagslegum toga, eins og við vorum minnt á fyrir um áratug síðan.

Herra forseti. Talandi um náttúruhamfarir og ef ég ræði þá skjálftahrinu sem nú stendur yfir á Reykjanesi þá varð Reykjanesskaginn til í eldgosum á nútíma og á sögulegum tíma og hafa orðið þar mörg gos með talsverðu hraunrennsli. Skaginn er virkur jarðfræðilega. Þetta leiðir aftur hugann að þeim innviðum sem flugvellir eru. Nýlegir og yfirstandandi atburðir gera út af við allar fyrirætlanir um uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni, sem er á þekktu hraunrennslissvæði. Við getum auðvitað ekki byggt upp flugvöll á því svæði. Tryggja þarf tilvist og öryggi beggja flugvallanna í nágrenninu, Keflavíkurflugvallar og flugvallarins í Vatnsmýrinni.