151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

560. mál
[14:37]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég fagna þessari skýrslubeiðni enda set ég nafn mitt á hana. Með útvistun á greiningu leghálskrabbameinssýna til Danmerkur hefur skapast óforsvaranlegt flækjustig fyrir feril þeirrar mikilvægu vinnu. Með þessari tilhögun þarf að búa til danska kennitölu fyrir hvern sjúkling og para niðurstöðurnar svo aftur saman við íslenska kennitölu. Það liggur í hlutarins eðli að þar skapast aukið og óþarft flækjustig sem eykur töluvert líkurnar á handvömm. Það, virðulegi forseti, er óforsvaranleg niðurstaða. En þessi skýrsla, sem ég vænti að allur þingheimur taki undir að sé mikilvæg, er veigamikið atriði í því að byggja aftur upp traust. Eins og fram hefur komið hefur skapast mikill kvíði meðal kvenna vegna þeirrar óvissu sem upp er komin í þessum málum og núna er tækifæri til þess að byrja að byggja þar upp traust.