151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

560. mál
[14:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 27. janúar síðastliðinn óskaði hv. velferðarnefnd eftir minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti um það fyrirkomulag sem hér er óskað skýrslu um, þ.e. ákvörðun um að færa skimanir út í þá óvissu sem nú er, því miður, sem fjölmargir sérfræðingar hafa kallað aðför að heilsu kvenna. Einnig var óskað eftir að fá að sjá samninga sem gerðir voru við danska rannsóknarstofu þar sem gengið var fram hjá innlendum sérfræðingum og þeim tækjum og tólum sem eru til á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, og fá að sjá ástæðuna sem liggur að baki því að færa þau störf úr landi. Því miður hefur heilbrigðisráðuneytið ekki enn svarað þeirri beiðni velferðarnefndar.

Skýrslan sem við fjöllum hér um í dag er bráðnauðsynleg enda verðum við að fá skýringu á því hvernig í veröldinni getur staðið á því að svona er búið að þessu eftir tveggja ára undirbúningstíma. Ég segi já.