151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

561. mál
[15:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Jú, það er verið að setja 80 milljónir í biðlistana en setjum það í samhengi við þær 180 milljónir sem voru settar í mat fyrir minkana og setjum það í samhengi við þær 500 milljónir sem eiga að fara í einkarekna fjölmiðla. Það er meiri peningur en fer í heild í dag til talmeinafræðinga, sem gera hvað? Þeir hjálpa börnum með málstol, með stam, raddvanda, málþroskaröskun, börnum fædd með skarð í gómi eða vör, börnum með heyrnarskerðingu, með framburðarfrávik, með einhverfu, með kyngingarvanda, fæðuinntökuvanda, snemmtæka íhlutun í málörvun, fatlanir, óhefðbundnar tjáskiptaaðferðir. En það á setja meira úr ríkissjóði í einkarekna fjölmiðla heldur en til þessa málefnis. Og þótt við myndum bæta við 180 milljónum, sem er þörf á þar inn, þá er það samt minna en fer til einkarekinna fjölmiðla í eigu auðmanna, að stærstum hluta, sem munu fá þetta.

Ég spyr: Er þetta rétt framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni í málefnum barna? Ef það eru til peningar á annað borð eigum við setja þá í málefni barna og við eigum að gera eitthvað strax, núna. Við getum ekki sagt: Við ætlum að gera þetta 2022. Þá höfum við leyft allt of mörgum börnum að lenda í vanda vegna þess að það segir sig sjálft að barn sem getur ekki talað við sjö ára aldur gengur ekki betur að tala þegar það er orðið tíu ára og kemst loks af biðlista og fær hjálp.