151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

álagning fasteignaskatta.

301. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um álagningu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Herra forseti. Frumvarp þetta, sem lagt var fram seint á haustþingi, mælir fyrir um afturvirkar breytingar á lögum sem varða álagningu og innheimtu fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði. Því er annars vegar ætlað að tryggja að mat á verðmæti atvinnuhúsnæðis á árinu 2020 taki með eðlilegum hætti mið af tekjufalli af völdum Covid-19 faraldursins í þeim greinum sem harðast urðu úti af hans völdum. Er miðað við að endurmat á verðmæti atvinnuhúsnæðis leiði fram tilsvarandi lækkun álagðra fasteignaskatta.

Hins vegar er frumvarpinu ætlað að opna sveitarfélögum heimild til að koma til móts við rekstraraðila atvinnuhúsnæðis sem af völdum faraldursins nýttist ekki til atvinnustarfsemi um lengri eða skemmri tíma á liðnu ári og fram á mitt þetta ár. Flutningsmenn horfa einkum til þess að atvinnuhúsnæði sem ferðaþjónustufyrirtæki um allt land hafa nýtt í starfsemi sinni hefur lítið eða ekki nýst til tekjuöflunar nú á annað ár. Ætla má að þetta tímabil verði a.m.k. 18 mánuðir. Skattlagning þessa húsnæðis eins og það skili enn svipuðum tekjum og fyrir faraldurinn á sér enga stoð og er til þess eins fallin að knýja fleiri fyrirtæki í þrot. Er því að mati flutningsmanna fullt tilefni til þess að Alþingi bregðist hratt við með tímabundnum breytingum á löggjöfinni svo að sveitarfélögin fái aðlagað fasteignaskatta að vonandi tímabundnu tekjufalli þeirra atvinnugreina sem borið hafa þyngstar byrðar af völdum veirufársins. Flutningsmenn gera sér grein fyrir því að lækkun skatttekna af fasteignasköttum auðveldar ekki rekstur sveitarfélaga. Hann verður hins vegar borinn uppi af skattlagningu ímyndaðra tekna fyrirtækja sem þurft hafa að loka starfsemi sinni um lengri eða skemmri tíma.

Herra forseti. Eins og áður segir er þessu frumvarpi ætlað að koma til móts við fyrirtæki og þá um leið starfsfólk þeirra við að bregðast við áhrifum Covid-19 farsóttarinnar á atvinnulífið. Þau áföll sem veirufaraldurinn hefur valdið atvinnurekstri landsmanna, og þó einkum allri starfsemi sem tengist ferðaþjónustu, eru stórfelld og alvarleg. Tugir þúsunda launamanna hafa ýmist misst atvinnu sína eða búa við stórfelldan tekjusamdrátt af völdum verkefnaskorts.

Ein birtingarmynd áhrifa farsóttarinnar er sú að fasteignir sem að jafnaði eru nýttar í atvinnustarfsemi sem nú hefur tímabundið lagst af eða laskast verulega standa ónýttar um lengri eða skemmri tíma. Áhrif faraldursins komu snögglega og gætti fyrst í marsmánuði á liðnu ári og varð víða verulegur tekjusamdráttur frá miðjum marsmánuði 2020.

Fasteignaskattur er verulega stór hluti af kostnaði við rekstur atvinnuhúsnæðis, en með atvinnuhúsnæði er átt við fasteignir sem eru skráðar sem slíkar í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Hlutfall fasteignaskatts í leiguverði atvinnuhúsnæðis getur numið 15–20%. Fasteignaskattur hvers árs er ákvarðaður á grunni fasteignamats sem ætlað er að endurspegla verðmæti fasteigna í febrúarmánuði árið áður. Þá er miðað við gangverð þeirra í viðskiptum miðað við heimila og mögulega nýtingu, samanber ákvæði 27. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Af þessari viðmiðun leiddi að fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði sem innheimtur var á árinu 2020 hækkaði um 6,9% frá því sem var árið á undan.

Fyrir árið 2021 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 1,7% að meðaltali. Því veldur að matið miðar við aðstæður eins og þær voru í febrúar og tekur ekkert tillit til þess að nýting fjölmargra tegunda fasteigna hrundi mánuði síðar. Við blasir að fráleitt er að leggja á og innheimta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði þar sem litlar sem engar tekjur hafa komið inn frá því í marsmánuði 2020 og horfur eru á að það ástand vari fram á sumar á þessu ári a.m.k.

Nauðsynlegt er að hlutast til um sjálfsagðar og einfaldar lagabreytingar til að tryggja að fasteignamatið og gjöldin sem á því eru byggð verði ekki reist á ímynduðum verðmætum eins og þau voru fáeinum dögum fyrir hrun ferðaþjónustunnar. Er því lagt til að aukið verði við lög um skráningu og mat fasteigna ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er fyrir Þjóðskrá Íslands að haga mati á atvinnuhúsnæði að þessu sinni miðað við aðstæður í aprílmánuði og taka upp þegar útgefið mat, sem byggðist á aðstæðum í febrúarmánuði, og endurútgefa að teknu tilliti til breyttra markaðsaðstæðna. Við blasir að fráleitt er að innheimta fasteignaskatta af hótelum og veitingastöðum og annarri ferðatengdri þjónustu eins og hér þrífist blómleg starfsemi á því sviði. Endurskoðað mat samkvæmt þessu verður þá gjaldstofn fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á árinu 2021. Þetta stuðlar að því að halda fyrirtækjum á lífi þannig að þau geti endurráðið starfsfólk þegar áhrifa veirunnar gætir ekki lengur og um leið dregið hratt úr atvinnuleysi.

Í annan stað er gerð tillaga um að aukið verði við lög um tekjustofna sveitarfélaga ákvæði til bráðabirgða sem heimili sveitarfélögum að lækka eða fella niður fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði þar sem starfsemi hefur lagst af um lengri eða skemmri tíma af völdum farsóttarinnar. Sveitarfélögin hafa hafnað lækkun skattsins við þessar aðstæður og borið því við að þau hafi ekki til þess lagaheimild. Hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfest þá lagatúlkun. Stjórnvöld hafa beint því til allra hagsmunaaðila að sameinast um að liðka fyrir rekstraraðilum sem berjast við að halda fyrirtækjum lifandi og eru tilbúin að taka upp fulla starfsemi á ný þegar faraldrinum linnir. Óhjákvæmilegt er að greiða fyrir því að sveitarfélögin geti tekið eðlilegan þátt í því og séu ekki að lögum bundin við að innheimta fullan fasteignaskatt eins og heimsfaraldur veirunnar hefði engin áhrif haft á atvinnulíf og efnahag. Áréttað skal að ákvæðið fellir enga skyldu á sveitarfélög en opnar þeim hins vegar heimild til að koma til móts við atvinnufyrirtæki í sveitarfélaginu sem situr uppi með ónýttar fasteignir af völdum veirunnar.

Herra forseti. Efnahagsleg viðspyrna á þessu ári mun ekki síst velta á því hversu hratt ferðaþjónustan tekur við sér að nýju. Með þessu frumvarpi er gerð tillaga um aðgerðir sem myndu flýta fyrir endurreisn ferðaþjónustunnar og koma í veg fyrir að ferðaþjónustufyrirtæki fari í gjaldþrot vegna innheimtu skatta á fyrirtæki sem hafa misst allan tekjugrundvöll sinn vegna faraldursins.