151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

hjúskaparlög.

347. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum og nokkrum öðrum lögum til þess að setja skýrt bann við barnahjónabandi. Bann við barnahjónabandi? kann einhver að spyrja. Já.

Áður en ég greini frá efni frumvarpsins leyfir forseti mér kannski að segja söguna af því, og gæti haft gaman af. Þetta er frumvarp sem á rætur að rekja til fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem ég sat í marsmánuði 2018. Þar stóð Ísland ásamt stjórnvöldum Malaví og Sambíu fyrir hliðarviðburði um baráttuna gegn barnahjónabandi í Afríku, sem verið hefur einn af hornsteinum þróunarsamvinnu Íslands í Afríku, enda eru barnahjónabönd þar um slóðir gríðarlegt samfélagsmein þar sem stúlkur eru á unga aldri gefnar ókunnugum og oft aldurhnignum mönnum, oft vegna fátæktar fjölskyldu sinnar, þær eru nánast seldar í hjónaband. Þetta er vandamál sem er sérstaklega mikilvægt að ræða nú í dag vegna þess að ein af afleiðingum Covid-faraldursins hefur verið aukning á þessum tilvikum víða í Afríku. Aukin fátækt sem Covid hefur haft áhrif á verður til þess að stúlkur eru frekar gefnar í hjónaband.

En þar sem ég sat á þessum fundi vorið 2018 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og hlustaði á fulltrúa frá Malaví og Sambíu og fulltrúa frá UN Women og jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi lýsa því hvernig það væri í grunninn búið að banna barnahjónabönd í öllum þessum löndum — fyrir utan einhverjar litlar lagalegar glufur sem fólk væri bara svo fjári duglegt að misnota, og eitt af því sem þyrfti að gera í öllum þessum löndum væri að stoppa í götin á löggjöfinni til að berjast gegn þeim fjára sem barnahjónabönd eru — þá hugsaði ég: Gott og vel, en hvernig ástandið á Íslandi? Mig rámaði einmitt í eitthvert undanþáguákvæði í hjúskaparlögum.

Það er einmitt þannig að í 7. gr. hjúskaparlaga kemur fram að almenna skilyrðið sé að tveir einstaklingar megi stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Þar kemur einnig fram að ráðuneytið geti veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap. Er það eitthvað notað? kann fólk að spyrja. Svarið við því fékk ég í fyrirspurn á 148. löggjafarþingi. Já, þetta er notað. Það er í alvöru þannig að íslensk stjórnvöld hafa veitt fólki heimild til að ganga í hjúskap, þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki náð 18 ára aldri, 18 sinnum frá því að sjálfræðisaldurinn var hækkaður í 18 ár. Það er u.þ.b. einu sinni á ári, þó aldrei frá árinu 2016.

Í svari þáverandi dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni kom fram að ráðherrann hefði sett af stað endurskoðun á umræddu undanþáguákvæði ásamt því að kanna hvort bæta ætti við ákvæði í hjúskaparlögin sem fjallaði um hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem framkvæmdar eru erlendis. Þetta var á 148. þingi. Svo leið og beið og skipt var um dómsmálaráðherra. Á 149. löggjafarþingi ákvað ég að spyrja þáverandi dómsmálaráðherra hvað liði þessari boðuðu endurskoðun. Þá var sagt að sú vinna stæði yfir og fyrirhugað væri að leggja fram frumvarp til breytingar á hjúskaparlögum á næsta þingi. Það löggjafarþing kom og það löggjafarþing fór. Á þessu löggjafarþingi ákvað ég því að taka það að mér að semja frumvarpið sjálfur og leggja það fram. Það er frumvarpið sem við ræðum hér í dag.

Þessi undanþáguheimild er nokkuð sem alþjóðastofnanir hvetja ríki heims almennt til að vera ekki með. Hægt er að benda á tilmæli Evrópuráðsins, hægt er að benda á að sambærilegar breytingar hafa verið gerðar á hinum Norðurlöndunum, hægt er að benda á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Undanþáguheimildin í íslenskum lögum er arfur fortíðar sem fella þarf úr gildi. Þegar undanþáguheimildin er farin úr lögum held ég líka að skoða þurfi hvernig hún hefur verið nýtt vegna þess að þegar litið er yfir lista einstaklinganna sem þessi heimild hefur verið veitt frá árinu 1998, og kannski sérstaklega borið saman við aldur hjónaefnisins sem viðkomandi gekk að eiga, kemur sitthvað sláandi í ljós.

Í fyrsta lagi eru allar undanþágur nema ein vegna kvenkyns umsækjanda sem er undir aldursmörkunum. Það eru sem sagt stúlkur sem sótt er um undanþágu fyrir. Þær eru 16 og 17 ára, en hjónaefnin eru jú flest á svipuðum aldri, 18, 19, 21. Þar er hægt að sjá fyrir sér að mögulega vilji fjölskyldan ekki að viðkomandi eignist barn utan hjúskapar eða hvað það er, og þess vegna sé einhver pressa á að ganga í hjónaband. En svo eru dæmi inn á milli, eins og árin 2004 og 2005, þar sem 31 árs karlar gengu að eiga 17 ára stúlkur með þessari undanþáguheimild. Dæmin þarna í kringum þrítugsaldurinn eru, að mér sýnist, fimm talsins af þessum 18 tilvikum. Hvaða rannsókn skyldi hafa átt sér stað í dómsmálaráðuneytinu til að fá fullvissu um að ekki væri um þvingað hjónaband að ræða, einhvers konar ofbeldi eða kúgun? Þetta er nokkuð sem ég held að rétt væri að gera upp.

Frumvarpið lagði ég fram í desember en núna í febrúar, eftir allar þessar tilraunir mínar til að fá ráðuneytið til að taka upp þráðinn, tók það loks upp þráðinn og birti í samráðsgáttinni drög í vinnslu um bann við barnahjónaböndum. Mögulega fáum við því sambærilegt stjórnarfrumvarp inn til þingsins með vorinu, sem myndi ná fram sömu markmiðum og frumvarpið sem ég mæli hér fyrir í dag. En ef hæstv. dómsmálaráðherra fellur á tíma með það frumvarp er þinginu auðvitað leikur einn að samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir og ég lagði fram í desember síðastliðnum, á sama tíma og stóð yfir 16 daga átak gegn ofbeldi gegn konum.

Herra forseti. Það væri bara einfaldast að samþykkja þetta frumvarp vegna þess að barnahjónabönd eru tegund af kynbundnu ofbeldi, þau eru ofbeldi sem Ísland berst gegn á alþjóðavísu og hvar sem við breiðum út boðskap jafnréttis og mannréttinda eigum við að sjálfsögðu að ganga fram með góðu fordæmi. Svo lengi sem við erum með undanþáguheimild í hjúskaparlögum til að leyfa börnum að ganga í hjónaband göngum við ekki fram með góðu fordæmi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi þetta frumvarp til allsherjar- og menntamálanefndar til afgreiðslu þar.