151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mál málanna er það sem við erum að upplifa núna, óróahrina í tveimur af fjórum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans. Sviðsmyndirnar sem við fáum breytast hratt en þær rúma þó tvennt, annars vegar stóran skjálfta og svo hins vegar eldgos og eldgos eru aldrei velkomin. Það er mjög mikilvægt að segja það, að mínu mati. Kvikusöfnun hefur legið fyrir nánast frá upphafi þessara umbrota vegna djúpskjálfta sem hafa sést á mælingum. Það hefur svo verið staðfest núna með gervihnattamælingum að það er kvikufyllt sprunga, 1,5, kannski 2 metrar á breidd, að myndast. Þau viðbrögð sem nú eru og orð kristallast auðvitað hjá Veðurstofunni, hjá vísindaráði almannavarna og hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Það eru sem sagt líkur á eldsumbrotum en þær eru ekki metnar nákvæmlega, það er ekki hægt. En líkurnar aukast með hverjum degi sem líður ef ekki dregur hratt úr þessum skjálftum. Líkurnar eru á fremur stuttu hraungosi úr sprungukerfi sem kennt er við Trölladyngju eða Krýsuvík og gæti — ég segi gæti — verið upphaf að goshrinu sem stendur í marga mánuði, í ár eða jafnvel tvo til þrjá áratugi miðað við umbrotin á 10. og 11. öld, 12. öld og 13. öld. Þetta er sem sagt stutt eða löng útgáfa af Kröflueldum sem margir muna eftir.

Herra forseti. Ég nefni þetta hér vegna þess að störf þingsins geta fljótlega markast af verulegri náttúruvá. Þá er að gæta að staðreyndum, halda ró, treysta vísindum og vinna þverpólitískt. Um áhrifin á samfélagið er erfitt að spá eins og ávallt þegar um slíkt er að ræða en það er til frægt tilsvar jarðfræðings: Við metum áhrifin eftir á.