151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum.

254. mál
[13:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Það er nefnilega þetta, að verið sé að versla með persónuupplýsingar, það er það sem er gert af einkafyrirtækjum. Og hæstv. dómsmálaráðherra ætlar að koma inn á það í síðara svari sínu hvað hún hafi gert eða hyggist gera varðandi vinnslu og dreifingu fyrirtækja á viðkvæmum, persónugreinanlegum upplýsingum sem voru birtar í dómi, jafnvel afmáðar úr dómi, en ekki þarna því að áfram eru þær þarna og unnið með þær og þær seldar. Til dæmis heilsufarsupplýsingar. Persónuvernd úrskurðaði að afmá þyrfti persónuupplýsingar í einu máli. En hvað með öll hin málin ef þar eru viðkvæmar heilsufars- og persónuupplýsingar um fólk? Ef fólk lendir í slysi, eins og hv. þingmaður þar sem ekið var á hann, þarf það samt sem áður að skila inn heilsufarsupplýsingum. Tveir læknar rífast og það getur ratað inn í dóma.

En eins og hæstv. dómsmálaráðherra nefnir hafa dómstólasýslan og dómstólarnir tekið á þessu máli og við höfum verið að fylgja því eftir síðan ég kom inn á þing. Hef ég sett mikinn fókus á það, enda hafa borgarar verið að benda mér á þessar brotalamir og við höfum oft fengið dómstólasýsluna á okkar fund. Nú virðist horfa til betri vegar, sér í lagi frá 12. febrúar. Þá kom fulltrúi dómstólasýslunnar og talaði um persónuverndarfulltrúa.

Þannig að ég vísa því til almennings: Ef það eru einhverjir dómar þar sem ykkur finnst að verið sé að brjóta gegn lögum um persónuvernd gagnvart ykkur, þá er samkvæmt lögum persónuverndarfulltrúi innan dómstólasýslunnar sem þið eigið rétt á að hafa samband við og hann hefur þá skyldu að vísa því til dómara og þeirra sem birta dóma um að það sé afmáð. Við erum komin þangað. Það þarf líka að skoða hvernig við takmörkum að þetta gerist í raun og veru, en við erum alla vega komin þangað. Þá kemur að því sem snýr fyllilega að hæstv. dómsmálaráðherra og það er að hafa eftirlit með því að persónuverndarlögunum sé framfylgt þannig að einkaaðilar séu ekki áfram að versla með viðkvæmar, persónugreinanlegar upplýsingar um borgara landsins. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera á öllum þessum tíma og nú í framhaldinu varðandi það?