151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum.

254. mál
[13:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég reyndi að fara yfir allar helstu breytingarnar og úrbætur og þá eftirfylgni sem við höfum haft með þessum breytingum en áfram þarf auðvitað að skoða hvernig unnt er að bæta frekar úr og ræða ýmsar tillögur þar um, t.d. hvort birta eigi dóma héraðsdóms, sem ekki er áfrýjað, á netinu og hafa aðgang að þeim með öðrum hætti. Það þarf að gæta að því hvernig fjallað er um dómsmál almennt og þá sem eiga aðild að þeim, m.a. í fjölmiðlum, og oft getur verið, eins og komið hefur fram, um viðkvæm málefni að ræða eins og dæmin sanna. Hjá því verður ekki horft að í fámennari umdæmum héraðsdómstóla getur birting yfir höfuð, þótt allrar persónuverndar sé gætt við birtingu, verið erfið þar sem öllum er kunnugt um hverjir aðilar málsins eru. Það er auðvitað áskorun í litlu samfélagi og kannski önnur áskorun sem við mætum hér en annars staðar, og það er eitthvað sem þarf að hafa í huga við áframhaldandi úrbætur á þessu sviði.

Eins og kom fram í svari mínu til hv. þingmanns áðan hefur Persónuvernd litið svo á að í tilfelli Hæstaréttar, í ákveðnu máli, teldist rétturinn ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í birtingu á útgefnum dómum réttarins. Og að því er varðar fyrirtæki eins og Fons Juris, sem birta dóma Hæstaréttar líka, þá telst fyrirtækið ekki sjálft vera ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í birtingu þeirra en telst vera ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í að gera dóma Hæstaréttar og annarra dómstóla, sem gefnir hafa verið út, tiltæka með því að veita aðgang að þeim. Það fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarsvið dómsmálaráðherra að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem birta opinberar upplýsingar, eins og dóma, en ábyrgðarsvið mitt nær til starfsemi dómstólanna og dómstólasýslan vinnur við að bæta verklagið og koma ábendingunum til fyrirtækjanna. Er bæði um að ræða reglusetningu og fræðslu, en einnig hefur verið brugðist við þeirri stöðu að aðrir en dómstólar birta dóma þeirra. Í slíkum tilfellum þarf að tilkynna um öryggisbrest við birtingu dóma og hafa þessir aðilar brugðist við slíkum tilkynningum og leiðrétt til samræmis við leiðréttingar hjá dómstólum eftir að þessu verklagi var komið upp.

Ég tel einfaldlega mikilvægt að borgararnir geti leitað til dómstóla með sín mál í trausti þess að vinnsla þeirra sé vönduð og lögmæt að öllu leyti og það verður áframhaldandi vinna hjá mér og mínu ráðuneyti.