151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

tryggingavernd nemenda.

528. mál
[14:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Auðvitað er mjög mikilvægt að ekki ríki óvissa. Það er svo að nemendur í iðnnámi í löggiltum iðngreinum, nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar eru slysatryggðir þegar þeir sinna verklegu námi, samkvæmt b-lið 7. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015. Á þessu kjörtímabili höfum við verið að styrkja stoðir iðnnáms alls staðar þar sem við getum komist í það. Eitt af því sem við höfum nýlega klárað er reglugerð um vinnustaðanám þar sem við bjóðum upp á þann valkost að komist nemendur ekki á samning sé það skylda skólans að tryggja að þeir komist á samning. Þannig sé það alveg eins er varðar bóklegt nám og starfsnám, að þegar nemandi hefur ákveðið nám tryggi skólinn að hann geti klárað námið. Við erum líka að skoða trygginga- og réttindamál betur í tengslum við skólaleiðina. En bara til að svara hv. þingmanni þá eru það þessi lög sem gilda um slysatryggingar almannatrygginga varðandi nemendur.