151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Að við séum að ræða skimanir hér undirstrikar í rauninni hversu mikilvægur þáttur það er í forvörnum í heilbrigðiskerfinu og að ábyrgð á vissum þáttum skimana hafi verið flutt til heilsugæslunnar undirstrikar einnig að þarna er um grunnheilsugæslu að ræða og forvarnir í því samhengi. Það er mjög mikilvægt að sem mest þátttaka sé í skimunum og þær séu framkvæmdar hér og að úrvinnsla á þeim upplýsingum sem fást séu unnar hér á landi. Í því ljósi er sérstök ástæða til að fagna erindi hæstv. ráðherra til Landspítalans, sem kemur fram á vef Stjórnarráðsins, dagsett í gær, þar sem ráðherra óskar eftir að fá botn í það með hvaða hætti og hvort Landspítalinn hafi getu og vilja til að sinna þeim skimunum sem um hefur verið rætt í samfélaginu að undanförnu. Það skiptir verulega miklu máli vegna þess að við viljum ekki vera að tala í einhverju þekkingarleysi um þessi mál heldur meta þau út frá alvöruupplýsingum og geta þannig tekið skynsamlegustu ákvarðanirnar fyrir þá sem njóta þessarar þjónustu.