151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

ferðakostnaður vegna tannréttinga.

521. mál
[15:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Við búum nokkuð dreift um landið en það hefur því miður verið þannig að öll sérhæfðari þjónusta hefur þjappast saman hér á suðvesturhorninu og svo á Akureyri enda hefur ríkið lítið gert til að hvetja til annars. Það þýðir að stór hluti þjóðarinnar þarf að ferðast um langan veg til að sækja þjónustu sem öðrum þykir sjálfsagt mál að sé í boði í næsta nágrenni. Það á einkum við um alls kyns heilbrigðisþjónustu. Vegalengdirnar þýða að oft fylgir því nokkur kostnaður að sækja þá þjónustu, kostnaður sem sannarlega er niðurgreiddur að hluta af ríkinu en þar er þó ýmis falinn kostnaður eins og vinnutap o.fl.

Eitt af því sem margir foreldrar kannast við er að sá tími kemur að börn þurfi að fara í tannréttingar með tilheyrandi kostnaði. Fyrir foreldra sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins bætist svo ofan á kostnaður vegna ferðalaga til að sækja þjónustuna. Þær Díana Jóhannsdóttir og Sif Huld Albertsdóttir eru báðar búsettar á Ísafirði og bentu nýverið á þessa staðreynd en þangað hefur lengi vel komið tannréttingasérfræðingur sem hefur sinnt svæðinu. Þeirri þjónustu hefur verið hætt og munu því allir á svæðinu þurfa að leita suður eða norður eftir þessari sérfræðiþjónustu. Almennt er greiddur ferðakostnaður vegna tveggja ferða á ári til að leita sjúkdómsmeðferðar sem ekki er í boði á heimaslóðum og falla tannréttingar undir það. En einhverra hluta vegna er það þó svo að aðeins er greiddur ferðakostnaður ef viðkomandi er kominn með föst tæki, t.d. spangir. Það þýðir að undirbúningsheimsókn og aðrar tegundir tannréttinga, eins og t.d. gómur sem er líka oft beitt, teljast ekki með og fæst þá ferðakostnaðurinn ekki greiddur og má geta þess að yfirleitt þarf fleiri en tvær ferðir á ári. Í ofanálag, herra forseti, þarf samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra að greiða 1.435 kr. fyrir ferðavottorð hjá heimilislækni til að komast til sérfræðilæknis til að fá endurgreiddar ferðir frá Sjúkratryggingum Íslands. Þá þarf einnig að greiða SÍ 1.500 kr. fyrir hverja ferð sem sótt er um endurgreiðslu á. Því þarf einstaklingur úti á landi sem þarf að leita heilbrigðisþjónustu annað að greiða 2.935 kr. sem má einfaldlega kalla landsbyggðarskatt.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver er ástæða þess að ekki er greiddur ferðakostnaður einstaklinga vegna fortannréttinga? Telur ráðherra koma til greina að endurskoða reglugerðina á þann hátt að þeir einstaklingar sem þurfa að leita þjónustu utan heimabyggðar fái ferðakostnaðinn greiddan, einnig vegna fortannréttinga? Telur ráðherra eðlilegt að einstaklingar sem þurfa að sækja læknismeðferð utan heimabyggðar þurfi að greiða 2.935 kr. aukalega til að geta fengið endurgreiðslu frá sjúkratryggingum vegna ferðakostnaðar?