151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

ferðakostnaður vegna tannréttinga.

521. mál
[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefur beint til mín annarri munnlegri fyrirspurn um ferðakostnað vegna tannréttinga. Hún spyr í fyrsta lagi hver sé ástæða þess að ekki er greiddur ferðakostnaður einstaklinga vegna allra tegunda tannréttinga. Svarið er að um endurgreiðslu ferðakostnaðar sjúkratryggðs gilda reglur sem eru tilgreindar í reglugerð um ferðakostnað. Eitt af grundvallarskilyrðum þess að réttur sé til að greiða ferðakostnað samkvæmt þeirri reglugerð er að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við sjúkdómsmeðferð. Það er ekki greiðsluþátttaka af hálfu Sjúkratrygginga í hluta tannréttingameðferða. Ef tannréttingar hefjast t.d. eftir 21 árs aldur og falla ekki undir reglugerðina myndast ekki réttur til greiðslu ferðakostnaðar. Sjúkratryggingar taka þátt í ákveðnum kostnaði við tannréttingar, sem fer eftir alvarleika vandans eins og hv. þingmaður þekkir, og endurgreiddur er kostnaður vegna tveggja ferða vegna tannréttinga en einnig er greiddur ferðastyrkur vegna ítrekaðra ferða vegna alvarlegustu tilvikanna.

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga er í stöðugri skoðun og ég vil fullvissa hv. þingmann um að það er eitt af því sem ég hef haft til skoðunar. Þá má sem dæmi nefna að reglugerðinni var breytt 1. janúar 2019 og bætt við greiðslu ferðakostnaðar vegna ferða sjúkratryggðs í tíðar blóðskilunarmeðferðir og líka fargjalds fylgdarmanns með konu sem ferðast til að fæða barn, áður hafði ekki verið endurgreiðsla af þeim ástæðum.

Hv. þingmaður spyr svo hvort til greina komi að endurskoða reglugerðina. Þá er svarið, eins og fram hefur komið, að greiðsluþátttakan er í stöðugri skoðun og líka endurgreiðsla á ferðakostnaði. En meginreglan er að sjúkratryggður á rétt á greiðslu kostnaðar vegna tveggja ferða á hverjum 12 mánuðum ef um er að ræða óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð eins og nefnt er, sem ekki er fyrir hendi í heimabyggð. Ef fella ætti undir það ferðakostnað vegna almennra tannréttinga sem styrktar eru af sjúkratryggingum samkvæmt V. kafla reglugerðarinnar, undir undantekningarákvæði, þannig að réttur væri til greiðslu ítrekaðra ferða, þyrfti að meta það með tilliti til jafnræðissjónarmiða hvort sama ætti að gilda um aðra almenna þjónustu lækna og tannlækna óháð alvarleika sjúkdóms eða vanda. Það er í raun og veru viðfangsefnið, ef svo má segja. Ef veita ætti rétt til greiðslu ferðakostnaðar vegna allra ferða til tannréttingarsérfræðinga, óháð því hvort greiðsluþátttaka er í meðferðinni, þyrfti að meta það líka með tilliti til jafnræðissjónarmiða hvort það sama ætti að gilda um ýmsar aðrar sérfræðimeðferðir.

Að lokum spyr hv. þingmaður hvort ráðherra telji eðlilegt að einstaklingar sem þurfa að leita læknismeðferðar utan heimabyggðar þurfi að greiða 2.935 kr. aukalega til að fá endurgreiðslu vegna ferðakostnaðar. Þá er rétt að benda á að einstaklingar sem þurfa að leita læknismeðferðar utan heimabyggðar þurfa ekki í öllum tilvikum að greiða umrædda upphæð aukalega til að fá endurgreiðslu. Læknir sækir um greiðslu ferðakostnaðar fyrir sjúkratryggðan með því að fylla út vottorð eða skýrslu vegna ferðakostnaðar innan lands og það er hlutverk læknis að skýra tilgang ferðar og staðfesta að meðferð sé ekki fáanleg í heimabyggð. Samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku kostar vottorðið 1.474 kr. eins og málin standa. Hægt er að sækja um vegna fleiri en einnar ferðar á hverju vottorði og eins og kemur fram í reglugerðinni er eigin hluti sjúklings vegna hverrar ferðar fram og til baka aldrei hærri en 1.500 kr. Þegar endurgreiðsla sjúklings er reiknuð er sú upphæð því dregin frá endurgreiðslunni og sé greiðsluhluti sjúkratryggðs t.d. orðinn hærri en sem nemur 10.000 kr. á 12 mánaða tímabili fellur upphæð eigin hluta sjúkratryggðs niður í 500 kr. fyrir hverja ferð.

Ég vona, virðulegur forseti, að svör mín hafi verið upplýsandi og fullnægjandi við spurningum hv. þingmanns.