151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

ferðakostnaður vegna tannréttinga.

521. mál
[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Allt fram streymir og við höldum áfram að tala um ferðakostnað hér þrátt fyrir nýjustu tíðindi. Það er auðvitað mjög mikilvægt þegar heildarmyndin er skoðuð að draga úr því sem fólk greiðir úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu og það snýst um að jafna aðgengi óháð efnahag og búsetu og sporna gegn því sem má kalla heilsufarslegan ójöfnuð. Markmið okkar á þessu kjörtímabili er að draga úr greiðsluþátttöku þannig að hún verði á pari við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Í fjármálaáætlun gerum við ráð fyrir 3,5 milljörðum til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu til ársins 2024 og á þessu ári gerum við ráð fyrir 800 milljónum til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Vegna þess að við erum að tala um tannlækningar og tannréttingar þá gerum við ráð fyrir að á þessu ári aukum við framlög til að mæta útgjöldum einstaklinga fyrir tannlæknisþjónustu vegna slysatilvika og meðfæddra galla og koma umtalsvert betur til móts við útgjöld fólks af þeim sökum. Þá er gert ráð fyrir því að við aukum niðurgreiðslur til tannlækninga lífeyrisþega á þessu ári og samkvæmt fjármálaáætlun erum við að fara að auka þau framlög um 200 milljónir á ári og lækka kostnaðarhlutdeild lífeyrisþega vegna tannlækninga úr 50% í 25% á tímabilinu en við lækkuðum það strax á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar úr 75% niður í 50%. Þetta snýst um samfélagslegan jöfnuð, að draga úr því að fólk þurfi að borga úr eigin vasa og tryggja sem jafnast aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu tiltölulega afmarkaða máli sem skiptir miklu fyrir tiltekinn hóp og þess vegna skiptir máli að setja mál af þessu tagi á dagskrá. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að þessi umræða og þessar vangaveltur og þessi sjónarmið eru á mínu borði.