151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

almannavarnir.

443. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (borgaraleg skylda).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Dagmar Sigurðardóttur og Valgerði Maríu Sigurðardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með lögum nr. 27/2020, um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, var bætt við almannavarnalög bráðabirgðaákvæði um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila til að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Ákvæðið gilti til 1. janúar 2021 og var ætlað að bregðast við því ástandi sem skapast hafði í þjóðfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins. Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði sama efnis gildi til 1. janúar 2022.

Ekki hefur enn tekist að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins og því telur meiri hlutinn tilefni til að bráðabirgðaheimild sú sem frumvarpið mælir fyrir um gildi enn um sinn. Reynsla síðasta árs sýnir að heimildin hefur gefist vel og hafa ýmsir opinberir aðilar óskað eftir því að gildistími hennar verði lengdur. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til greinargerðar með áðurnefndum lögum, nr. 27/2020, um tilefni og nauðsyn lagasetningar og nefndarálits nefndarinnar um málið (697. mál á 150. löggjafarþingi), þar á meðal sjónarmið um meðalhóf og um launakjör.

Meiri hlutinn tekur einnig fram að hafin er endurskoðun á lögum um almannavarnir. Var frumvarp þess efnis birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins 29. janúar sl. og er fyrsta skrefið í endurskoðun laganna. Í greinargerð með því frumvarpi kemur einnig fram að fyrirhugað er að árin 2022–2025 verði unnið í víðtæku samráði að heildarendurskoðun laganna. Meiri hlutinn fagnar framangreindu en í fyrrgreindu nefndaráliti var það mat nefndarinnar að ærið tilefni væri til að ráðast í heildarendurskoðun laganna.

Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og undir þetta rita Páll Magnússon, sem hér stendur, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.