151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

stjórn fiskveiða.

350. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nýta þennan tíma í annarri umferð og taka hjartanlega undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni hér áðan. Ég nefndi í ræðu minni að þetta frumvarp eins og það liggur fyrir væri lagfæring á einu atriði í fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Það mætti nefna fleiri, m.a. það sem hv. þingmaður vakti máls á hér áðan. Í rauninni væri betra, og efni í annað frumvarp, í stað þess að miða við þessi torskildu þorskígildi sem var rætt um hér áðan, að miða við hámark í heildaraflahlutdeild í hverri kvótasettri tegund fyrir sig. Það er miklu skynsamlegri nálgun að mínu mati og þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Það er eitt atriði sem má lagfæra.

Ég vil í þessari stuttu ræðu nefna annað atriði sem er lagfæringaratriði. Í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um svokallaðan forkaupsrétt sveitarfélaga að skipum með aflaheimildum ef til stendur að selja þau úr viðkomandi byggðarlagi. Nú hefur reynt á það í dómskerfinu og fyrir liggur niðurstaða Hæstaréttar í því að þetta ákvæði eða sú hugsun sem þar liggur að baki heldur ekki. Enginn virkur forkaupsréttur er fyrir hendi eins og þó er gert ráð fyrir í lögum um stjórn fiskveiða. Þá tel ég að nauðsynleg lagahreinsun þurfi að fara fram í því tilliti. Annaðhvort kemst löggjafinn að þeirri niðurstöðu að tryggja verði þann forkaupsrétt eða afnema hann úr lögum. Hann er ekki tryggður með núverandi lögum samkvæmt dómi Hæstaréttar og þá er annaðhvort að ná þessu fram, gera forkaupsréttinn virkan eða þá að afnema þetta ákvæði úr lögunum, ekki láta standa eftir ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða sem hafnað hefur verið af Hæstarétti. Nú er það svo að ég er ekki alveg viss í minni sök hvað varðar þetta mál. Á að gera þennan forkaupsrétt virkan eða ekki? Á að tryggja það að sveitarfélög fái þennan forkaupsrétt og þá með öðruvísi laganna hljóðan en núna er eða eigum við að taka hann í burtu? Annað tveggja verður að gerast. Það er ekki hægt að hafa ákvæði í fiskveiðistjórnarlögunum sem búið er að úrskurða að standist ekki.