151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

uppbygging geðsjúkrahúss.

395. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um uppbyggingu geðsjúkrahúss, en hún er löngu tímabær. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að tryggja bætta aðstöðu fyrir geðsvið Landspítala til frambúðar með uppbyggingu geðsjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Skipaður verði starfshópur fagfólks og hagsmunaaðila, þar með talið notenda og aðstandenda þeirra, sem annist frumathugun, þarfagreiningu og húsrýmisáætlun vegna verksins, beri saman ólíka kosti og leggi fram tillögur að staðsetningu og stærð. Tryggt verði að nýr húsakostur mæti kröfum nútímans um mannúðlega, framsækna og fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu. Starfshópurinn leggi greinargerð sína og tillögur fyrir ráðherra eigi síðar en 1. júní 2021.“

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðist verði í markvissan undirbúning að uppbyggingu húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Brýnt er að samhliða uppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut verði geðsviði Landspítalans fundinn fullnægjandi húsakostur sem tekur mið af þörfum fólks sem glímir við geðrænar áskoranir.

Í dag fer starfsemi geðsviðs einkum fram í gömlu byggingunni við Hringbraut og á Kleppi við Elliðaárvog. Húsnæðið á Hringbraut er byggt á áttunda áratugnum eftir byggingarreglugerðum þess tíma en Kleppsbyggingin var tekin í notkun árið 1929. Landssamtökin Geðhjálp hafa bent á að húsnæðið við Hringbraut sé um margt óhentugt fyrir starfsemina, þannig sé til að mynda ekki gert ráð fyrir útisvæðum fyrir þá sem eru í vistun á lokuðum deildum og í gæslu vegna veikinda sinna. Húsnæði Klepps er úr sér gengið og hugmyndafræðin að baki aðstöðunni gamaldags og á skjön við nútímakröfur um mannúðlega meðferð sjúklinga sem glíma við geðrænar áskoranir.

Herra forseti. Í úttekt landlæknis á geðsviði Landspítala frá 2013 kemur fram að ástandi húsnæðis sé víða ábótavant og það standist ekki kröfur nútímans. Húsbúnaður sé úr sér genginn, skortur sé á viðtalsherbergjum og óæskilegt fyrir þennan viðkvæma sjúklingahóp hve mörg legurýmanna séu í tvíbýli. Þá telji starfsmenn niðurlægjandi fyrir sig og sjúklingana að vinna og dvelja í niðurníddu umhverfi. Landlæknir kemst að þeirri niðurstöðu í úttektinni að gera þurfi nauðsynlegar úrbætur á húsnæði og húsbúnaði geðsviðs sem fyrst. Þetta var árið 2013. Síðan hefur lítið breyst í þessum efnum og má segja að geðheilbrigðisþjónustan hafi setið eftir í þeirri húsnæðisuppbyggingu sem stendur yfir í heilbrigðiskerfinu. Sú húsnæðisuppbygging var löngu tímabær og mjög vel að henni staðið og megum við öll vera stolt af því sem er þar á ferð.

Víða á Norðurlöndum hafa verið stigin mikilvæg skref á undanförnum árum í átt að mannúðlegra og heilnæmara umhverfi fyrir sjúklinga sem glíma við geðrænar áskoranir. Í því samhengi má nefna geðsjúkrahúsið í Vejle í Danmörku sem var opnað árið 2017 í nýrri byggingu þar sem öll innanhússhönnun tekur mið af viðurkenndum áhrifum umhverfis og húsakosts á geðheilsu. Einnig er vert að skoða þá uppbyggingu sem nú á sér stað við Bispebjerg-spítalann í Kaupmannahöfn og réttargeðdeildina á Sct. Hans í Hróarskeldu. Löngu er orðið tímabært að stigin verði sams konar skref á Íslandi og starfsemi geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss fundinn húsakostur þar sem er bjart, vítt til veggja og hátt til lofts og í umhverfi sem býður upp á útiveru og hreyfingu því að það hlýtur alltaf að vera til góðs fyrir þá sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja til skemmri eða lengri tíma á spítala. Lagt er til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem vinni frumathugun og skili af sér greinargerð um mitt ár 2021.

Herra forseti. Eftir að þessi þingsályktunartillaga var lögð fram hér við þing bárust þær fregnir að nú væri rætt um að reisa allsherjarbjörgunarmiðstöð fyrir landið á lóð við Kleppsspítala, miðstöð fyrir lögreglu, slökkvistarf, Neyðarlínu, björgunarsveitir, já, allsherjarbjörgunarmiðstöð fyrir allt landið. Það er vel. En við hljótum að vera sammála um, og átta okkur á því, að slík björgunarmiðstöð, með því áreiti sem því fylgir, getur varla verið heppileg við hlið geðsjúkrahúss. Staðsetning sjúkrahússins á Kleppi hefur löngum þótt óheppileg vegna allrar þeirrar umferðar sem þar er í kring. Eins og áður hefur komið fram, hvort tveggja í úttekt sem fram fór árið 2013 sem og síðar, þá er afar mikilvægt að þeir sjúklingar sem þarna dvelja, bæði á réttaröryggisgeðdeildinni og öðrum deildum, lokuðum sem opnum, eigi möguleika á því að fara út, að njóta súrefnis, að komast út fyrir hússins dyr, að hreyfa sig, að fá einhvers konar heilsurækt. En því miður er ekki svo, hvorki við Hringbraut né á Kleppi.

Þessi þingsályktunartillaga fjallar um aðstöðuna hér á höfuðborgarsvæðinu. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er geðdeild sem þarf líka að bæta en hún var ekki tekin með inn í þessa þingsályktunartillögu vegna þess að hér er meginþunginn af geðsjúkrahúsum landsins. Við þurfum að komast lengra. Við þurfum að komast inn í mannúðlegra umhverfi fyrir þá sem glíma við geðrænar áskoranir. Það er algjört lífsspursmál að við komumst inn í nútímann, að við færum þetta nær því sem við þekkjum í dag í læknisfræði, þegar kemur að geðheilbrigði.

Það er ekki úr vegi í lokin að benda á að á Íslandi er engin deild sem leyfir lyfjalausa meðferð. Slíkar deildir þekkjast á öllum öðrum Norðurlöndum og í flestum ríkjum hins vestræna heims a.m.k. Það að þeir sjúklingar sem glíma við geðrænar áskoranir geti ekki fengið handleiðslu, fengið þjónustu, til að takast á við sín veikindi án lyfja árið 2021 er ekki boðlegt. Við þurfum að gera betur. Við þurfum að búa til aðstöðu þar sem er líka hægt að taka á móti sjúklingum sem velja að komast í gegnum sín veikindi án lyfjagjafar. Það þarf að vera val. Í OPCAT-skýrslu umboðsmanns Alþingis frá 2018 er líka talað um þessar þvinguðu meðferðir, þar á meðal þvingaða lyfjameðferð, af því að við höfum ekki möguleika á þessu vali. Við erum ansi aftarlega. Þrátt fyrir frábært starfsfólk, framúrskarandi starfsfólk á geðsviði Landspítala, erum við ansi aftarlega þegar kemur að þessu öllu. Þetta er byrjunin, þingsályktunartillaga um að færa geðsviðið og húsnæðið inn í nútímann og ég vona að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga áður en vorþingi lýkur. Að þessu sögðu þá legg ég til að tillagan gangi til hv. velferðarnefndar.