151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hversu flókið er þetta mál? Hvað þarf nefnd langan tíma til að átta sig á hver staðan er hjá fólki sem misst hefur vinnuna í atvinnukreppu? Þessi nefnd er búin að starfa síðan í byrjun desember, það kom alla vega fram í máli hæstv. forsætisráðherra, 14. desember, og nú er kominn mars og það er ekkert að frétta. Hvað er svona flókið? Hvern einasta dag sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra situr hjá og tekur ekki á málinu eykst efnahagslegur og félagslegur vandi sem mun hafa mikinn kostnað í för með sér í framtíðinni. Ef ég skil hæstv. ráðherrann rétt ganga tillögur hans, sem birtast hugsanlega kannski á næstu vikum, út á það að sveitarfélögin, sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna þess að það eru margir atvinnulausir í þeim sveitarfélögum, eiga að bera mestan kostnaðinn í atvinnukreppunni vegna þess að ríkið vill ekki setja pening í það að lengja atvinnuleysistímabilið eins og augljóst og sjálfsagt er að gera. Við sem samfélag berum ákveðnar skyldur til að taka á þessum vanda.