151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

[13:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin, en þau voru mjög rýr. Hvernig í ósköpunum stendur á því að setja þarf nefnd í málið og endurskoða þetta? Hvernig þá að endurskoða? Fara með skýrsluna niður á tjörn og láta endur skoða hana? Ég skil ekki svona málflutning. Þegar við erum að tala um ríkasta liðið í landinu, fyrirtæki sem greiða sér milljarða í arð, þá er ekkert verið að endurskoða eða setja í nefnd. Þá eru hlutirnir gerðir einn, tveir og þrír. Ef það þarf að lækka veiðigjöldin á þá sem greiða sér milljarða í arð, af því að þeir þurfa að borga 10% eða 20% af milljörðunum, þá er ekkert verið að endurskoða eða setja í nefnd. Það er bara gert einn, tveir og þrír. En þegar á að sjá til þess að fólk þurfi ekki að standa í röðum eftir mat þarf nefnd, endurskoðun og nefnd á nefnd ofan, og svo þarf að klóra sér í hausnum yfir virkni. Þetta hefur ekkert með það að gera. Fólk borðar ekki fyrir virkni, endurskoðun eða nefndir. Það borðar og kaupir fyrir það sem það fær í vasann. Þannig er staðan og það er stór hópur, 5.000–10.000 manns, heilu fjölskyldurnar, sem þarf að lifa af minna en 200.000 kr.