151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurskoðun almannatryggingakerfisins.

[13:28]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Í fyrsta lagi hefur þeim 4 milljörðum sem ætlaðir voru til kerfisbreytinga á þessu kjörtímabili verið ráðstafað til þessa hóps með aðgerðum, bæði þegar stigin voru verulega stór skref í því að draga úr skerðingum, krónu á móti krónu skerðingum, og síðan þegar samþykktar voru aðgerðir hér fyrir jól sem sérstaklega var beint að þeim hópi örorkulífeyrisþega sem hefur hvað lægstar tekjur eða þar sem þörfin er mest. Þannig að þeim 4 milljörðum hefur verið ráðstafað með lagafrumvörpum sem samþykkt hafa verið hér á þinginu. Þær breytingar sem gerðar voru rímuðu við fyrirhugaðar kerfisbreytingar sem ætlunin var að ráðast í.

Hins vegar er það alveg ljóst, eins og fram kemur hjá hv. þingmanni, að kerfisbreytingin sem við ætluðum að ráðast í á þessu kjörtímabili og lýtur að því að stokka spilin algjörlega upp á nýtt í almannatryggingakerfinu, bæði gagnvart bótaflokkunum en líka þeim þætti sem snýr að því að koma fólki í virkni, halda fólki í virkni og aðstoða það við að komast aftur út á vinnumarkaðinn, hefur ekki klárast. Við höfum stigið ákveðin skref í því, endurhæfingarlífeyrir hefur verið aukinn, en það er alveg ljóst, svo ég sé algerlega heiðarlegur varðandi það, að þetta hefur ekki náð fram að ganga af þeim krafti sem við ætluðum okkur. Það varð meiri andstaða við þessar kerfisbreytingar en búast mátti við, ekki bara hjá hagsmunasamtökum örorkulífeyrisþega heldur líka á vinnumarkaði. Mér hefur samt fundist upp á síðkastið að sú andstaða sé að minnka og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að ráðast í kerfisbreytingar og einfalda kerfið eins og ætlunin var á kjörtímabilinu og við höfum stigið ákveðin skref í þá átt. En ég deili skoðun hv. þingmanns um mikilvægi þess að einfalda kerfið og líka að fara yfir markmið þess. (Forseti hringir.) Markmiðið er að aðstoða fólk við að vera á vinnumarkaði, (Forseti hringir.) halda áfram á vinnumarkaði og vinna í sínum málum með þeim hætti.