151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[13:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir frumkvæðið að þessari góðu umræðu. Ég þekki til einstaklings sem fékk heilaskaða sem barn og þekki aðeins stöðu hans og fjölskyldu hans og hér er stutt saga af henni. Það er merkilegt þegar litið er til baka hvað líf þessa einstaklings hefur verið fyllt tækifærum og möguleikum í menntakerfinu og á almennum vinnumarkaði. Þar spila stórt inn í skólakerfið og atvinnulífið á Suðurnesjum, hvernig það sinnti skyldum sínum gagnvart þessum einstaklingum. Almennt er grunnskólinn þó kassalaga þegar kemur að vandræðum drengja í námi og nýjum leiðum til að mæta óskum þeirra eins og við þekkjum. Fjölbrautaskóli Suðurnesja tekur hins vegar afar vel á móti einstaklingum með heilaskaða og þar er sannarlega góð endurhæfing og tækifæri til náms. Starfsnám og tækifæri til stúdentsnáms eru talandi dæmi um frábæran skóla sem gefur slíkum einstaklingum ný tækifæri og lífsgæði sem skipta miklu máli á unglingsaldri fyrir alla framtíðina. Þá bíður Háskóli Íslands tveggja ára diplómanám þar sem einstaklingur með heilaskaða getur útskrifast á leikskólabraut eða íþróttabraut með almennum nemendum. Hópastarf og þau tækifæri sem fylgja slíku námi er frábært tækifæri fyrir þessa einstaklinga til að vinna með nemendum á jafnréttisgrundvelli. Þar endar möguleikinn á námi á háskólastigi en líklegt verður að teljast að frekari tækifæri opnist fyrir þessa einstaklinga til frekara náms.

Virðulegur forseti. Vinnumarkaður á Suðurnesjum tekur líka vel á móti einstaklingum með heilaskaða. Viðkomandi sem ég nefndi er starfsmaður á leikskóla og fær laun samkvæmt launatöflu Reykjanesbæjar. Börn með greiningar laðast að þessum einstaklingi og finna hjá honum skjól. Hann er sérstakur starfsmaður. Á sumrin stundar minn maður golf og vinnur á golfvellinum við slátt og almenna vinnu í ferskum vindum á Leirunni.

Virðulegi forseti. Það eru líka til fallegar sögur úr samfélaginu sem styður við bakið á fólki með öðruvísi hæfileika.