151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur og hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar í þessa þörfu og mikilvægu umræðu. Mér finnst standa upp úr í þessari umræðu að það skortir almenna þekkingu. Auðvitað eigum við sérfræðinga sem þekkja þessa vinnu og þessa áverka. Við verðum auðvitað að fara vel með þessi hugtök en það er grundvöllurinn að auknum skilningi. Þá komum við að upplýsingagjöf og fræðslu. Ég met það svo að sú umræða sem fer fram nú sé hluti af því að efla vitundarvakninguna sem hefur orðið. Hér hefur komið fram að í mörgum tilvikum er þetta áverkatengt og alls konar kringumstæður eða atvik sem geta valdið þungum höggum og heilaskaða. Þá kemur að forvarnaþættinum og að við greinum kringumstæðurnar á hverju sviði.

Ég ætla að draga fram íþróttirnar. Það hefur ekki komið fram hér í umræðunni en það eru kringumstæður sem þekkt er að valda höfuðhöggum. Í raun og veru finnst mér viðbrögð íþróttahreyfingarinnar og sú umræða sem hefur átt sér stað þar — bara það að skalla bolta eða skella í gólf og fá þung höfuðhögg, ekki fyrir löngu síðan var viðkvæðið yfirleitt að harka þetta bara af sér. Íþróttahreyfingin hefur hins vegar nýlega farið í átak þar sem slagorðið er einmitt: Ekki harka af þér. Leitaðu til sérfræðinga vegna þess að afleiðingarnar koma oft á tíðum fram síðar. Þess vegna vil ég nú bara segja hér, af því að tíminn er farinn frá mér, virðulegi forseti, að ég fagna þessari umræðu. Hún er hluti af því að efla vitundarvakninguna og mér líst vel á þær tillögur sem koma fram í skýrslu hæstv. ráðherra um þennan, eins og yfirskriftin er orðuð, þögla faraldur.