151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákominn heilaskaða.

[14:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Örfáir punktar hér að lokum: Í fyrsta lagi getum við gert ráð fyrir, miðað við viðmiðunartölur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að það séu um 2.000 manns á ári á Íslandi sem verða fyrir einhvers konar áfalli af þessu tagi og 15% af þeim, þ.e. 300 manns, séu með einhvers konar einkenni eða vanda sem tekur yfir lengri tíma en mánuð. Það eru stóru tölurnar í þessu.

Ég tek undir allar ábendingar hér. Mér finnst umræðan hafa verið afar góð og lýst miklum áhuga og vilja til að taka þessi mál alvarlega. Ég tek undir allar áherslur sem hér hafa komið fram varðandi fræðslu og forvarnir og vil sérstaklega beina orðum mínum að íþróttahreyfingunni sem hefur staðið sig mjög vel í því að setja þessa umræðu í brennipunkt. Mig langar að nefna taugateymi Barnaspítala Hringsins sem sinnir börnum og unglingum sem koma vegna afleiðinga vægari heilaáverka, m.a. vegna íþróttameiðsla, bara þannig að því sé haldið til haga af því að það hefur ekki verið nefnt hér. Ég vil líka nefna endurhæfingarstefnu sem liggur fyrir, og varðar auðvitað stóru myndina, og endurhæfingarteymi sem verið er að setja upp á grundvelli endurhæfingarstefnu í öllum heilbrigðisumdæmum. Það er auðvitað afar mikilvægt, eins og hér hefur verið bent á, að þetta sé ekki einskorðað við höfuðborgarsvæðið. Fyrsta endurhæfingarteymið er komið í gang á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og heiður og sómi sé því góða fólki.

Síðan vil ég segja að lokum að aðgerðaáætlun á grundvelli þessarar skýrslu sem hér hefur verið aðeins til umræðu er að fæðast í ráðuneytinu. Þá getum við fléttað þær aðgerðir inn í aðrar á grundvelli heilbrigðisstefnu og tryggt að þær aðgerðir komist til framkvæmda og séu fjármagnaðar vegna þess að þessi hópur, sem hefur að mörgu leyti verið ósýnilegur, á það skilið. — Ég þakka, virðulegur forseti, fyrir góða umræðu.