151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta ágæta andsvar og ég get bara svarað nokkuð hratt og vel: Ég hef ekki hugmynd um það, ég veit það ekki og ég er ekki endilega meira á því en hv. þingmaður að þetta skuli erfast og það er ekki kjarninn í máli mínu og breytingartillögu minni. Það snýst miklu frekar um réttindi útgefenda sem mér eru hugleikin og er ég þó kominn af einstaklingi sem lagði fyrir sig bókagerð en er lítill áhugamaður um þann arf. Oft erum við hérna í einhverjum umræðum um erfðalög og fyrirkomulag á arfi og erfðum en ég hef ekki sett mig inn í og búið mig undir að fjalla um það í þessari pontu í dag. Þó að ég hafi ágætt sjálfsálit og telji mig vel fallinn til margs þá er ég nú kannski ekki bógur til þess að fara að bylta erfðalögum á þessari stundu. Ég biðst bara forláts á því. En ég fagna því að hv. þingmaður skuli styðja breytingartillögu mína og átta sig á þeirri meginhugsun sem þar býr að baki.