151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki endanlega gert upp hug minn gagnvart atkvæðagreiðslu um einstaka ákvæði í frumvarpinu. En ég er alla vega ekki á móti tillögu hv. þingmanns sem stendur. Ég get mér til um það að ef við hv. þingmaður færum að ræða erfðir og erfðarétt og allt það værum við kannski meira sammála um þau mál en endilega alla þætti höfundaréttar. En það sem mér þykir svo áhugavert við höfundarétt er að hann virðist vera mjög sérstök tegund af eignarrétti, svo flóknum að það er þokkalegt erfiði að útskýra fyrir barni t.d. hvers vegna nákvæmlega það er ekki í lagi að afrita eitthvert afþreyingarefni í leyfisleysi. Það er vegna þess að börn skilja auðveldlega að maður á ekki að hrinda fólki, ekki að meiða, ekki að ljúga og ekki að stela. En ef maður ætlar að útskýra fyrir barni höfundarétt þá erum við strax komin út í frekar þykka flókna, og fyrirgefið, virðulegi forseti, drepleiðinlega lögfræði með alls konar öngum og skrýtnum sögulegum skýringum sem virðast ekki rökréttar jafnvel eftir þó nokkra umræðu og hvað þá við fyrstu sýn. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við beitum ákveðinni gagnrýninni hugsun gagnvart höfundalögum og höfundarétti. Ég átta mig fullkomlega á því að það er meira en að nefna það vegna þess að við erum aðilar að alþjóðlegu samstarfi sem gerir ráð fyrir ákveðinni uppbyggingu höfundaréttar þannig að þetta eru breytingar sem þyrftu að eiga sér stað á ofboðslega stórum skala til að verða að raunveruleika. En þó hygg ég að við ættum, innan þess ramma sem við getum, að ganga eins langt og við getum í því að hafa höfundaréttinn þó í samræmi við eitthvað sem við gætum kallað almenna skynsemi. Nú hef ég í sjálfu sér ekki spurningu til hv. þingmanns og leyfi honum að bregðast við ef hann svo kýs. En ég alla vega hygg að við eigum að skoða höfundarétt með gagnrýnum augum. Það er kannski inntakið í því sem ég er að reyna að segja.