151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðuna, sem var ágæt, en mér fannst við samt færast fjær hvor öðrum eftir því sem leið á ræðuna. Með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni og hans merkilega starfi við hugbúnaðargerð, sem ég dreg ekkert í efa, vil ég engu að síður leyfa mér að efast um að hv. þingmaður sé á sínu þingfararkaupi alveg rétti maðurinn til að tala fyrir hönd höfunda og afþakka fyrir hönd íslenskra höfunda bætur fyrir þessi afnot. Ég veit ekki hvort það sé alltaf nógu sniðugt að við séum að tala út frá sjálfum okkur. Það er fullt af fólki sem hefur viðurværi sitt, lifir af því að skrifa bækur, búa til bækur. Það hefur viðurværi sitt af því að selja þessar bækur á markaði, gamaldags bækur á gamaldags markaði sem borgað er fyrir í gamaldags krónum. Þannig er þetta hagkerfi þarna úti enn þá að miklum hluta og við þurfum kannski svolítið að virða það.

Já, skortur. Þetta er dálítið skemmtileg pæling með skortinn. Áður en Sjálfstætt fólk var skrifuð var skortur á Sjálfstæðu fólki í heiminum. Sú bók var ekki til. Svo er þeim skorti útrýmt með því að skrifa Sjálfstætt fólk. Halldór Laxness skrifaði Sjálfstætt fólk og þar með varð sú bók til. Ég tel að Sjálfstætt fólk hafi kostað slíkt erfiði fyrir höfund sinn að hann hafi átt skilið, rétt eins og verkamaðurinn sem byggir hús fær kaup fyrir það sem hann gerir — það er kannski ekki sanngjarnt og ekki nógu mikið kaup sem hann fær en hann fær kaup engu að síður. Þannig á höfundur Sjálfstæðs fólks líka að fá kaup fyrir sína vinnu þegar hann hefur skrifað slíka bók, jafnvel þó að það væri miklu lélegri bók. Það er bara sanngirnismál.