151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að það getur verið pínu kjánalegt þegar þingmenn tala út frá sjálfum sér í pontu. Ég er sekur um það og reyni stundum að venja mig af því. (GuðmT: Ég líka.) Þannig að ég get tekið undir það. Þó verð ég að halda því til haga að þegar ég hef ekki verið þingmaður, sem hefur verið bróðurparturinn af starfsreynslu minni, hef ég unnið við hugbúnað og þegar ég lýk þingstörfum 25. september næstkomandi hyggst ég halda áfram að búa til hugbúnað. Ég bý til hugbúnað í dag og ég vil gefa hann. Ég gef hann út undir opnum leyfum sem virka einungis vegna höfundaréttar þannig að því sé haldið til haga.

Ég geri engan ágreining um að höfundar eigi að geta lifað af vinnu sinni. Hins vegar finnst mér stundum látið eins og hlutir séu augljósir í höfundarétti sem mér þykir einfaldlega ekki augljósir. Ég ætla að vitna í fyrstu setninguna í stefnu Pírata um höfundarétt. Hún er þessi, með leyfi forseta:

„Höfundar skuli eiga rétt á að njóta ágóða af verkum sínum.“

Um þetta er enginn ágreiningur. En það skiptir máli hvernig við höfum hlutina og það skiptir máli að eignarréttur eins gangi ekki á eignarrétt annars, eins og dæmið um byggingarnar sem ég nefndi. Hv. þingmaður eða einhver með fötlun kaupir kannski eign, vill bæta aðgengið og má það ekki, má ekki breyta eign sinni sem viðkomandi er búinn að borga fyrir vegna þess að einhver annar á höfundaréttinn og ræður því hvernig hlutirnir líta út. Þarna skarast hlutirnir. Það er ekki svo augljóst hvernig á að hafa þetta.

En aftur, virðulegur forseti, verð ég að gefa hv. þingmanni það að ég bauð afskaplega lítið af lausnum, ef nokkrar, í ræðu minni. Mér þykir þetta mál, eins og höfundaréttarmál almennt, tilefni til að endurskoða hvað það er sem við erum að reyna að ná fram með höfundarétti yfir höfuð. Ef eina markmiðið er að afla tekna fyrir höfunda þá eru aðrar leiðir mögulegar en einfaldlega að hamla afritun. (Forseti hringir.) En við erum bara í miðri byltingu þannig að það er ekki alveg ljóst nákvæmlega hvaða aðferðir virka.