151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri engan ágreining um það að höfundar eigi að fá greitt fyrir vinnu sína. Ástæðan fyrir því að munur er á því og appelsínunni er að ef einhver annar fær appelsínuna hefur höfundurinn hana ekki lengur, getur ekki borðað hana og verður af þeirri eign sinni. Það eru mýmörg dæmi um að fólk gefi hugverkin sín vegna þess að það stendur ekki að þeim í gróðavon heldur bara vegna þess að það vantar eitthvert tæki, eins og margir ef ekki flestir forritarar gera. Þeir búa til hugbúnað sem þeir þurfa sjálfir til að ná einhverju markmiði, hvað sem það er, og gefa hann síðan út og leyfa öllum í heiminum sem vilja að njóta hans. Reyndar er alveg óskaplega mikið af hugbúnaði gefinn út undir slíkum leyfum af þeirri ástæðu að þetta eru ekki appelsínur. Þetta eru ekki veraldleg gæði sem höfundarnir verða af við það að dreifa. Það er grundvallareðlismunur á þessum tveimur vörum og þess vegna er eðlilegt að við hugsum öðruvísi um hvernig við hönnum viðskiptamódelin sem eru gerð til að greiða höfundum laun, hvort sem það eru höfundar að bókmenntum, hugbúnaði, kvikmyndum, tónlist eða hverju sem er.

Í grunninn, enn og aftur, er ég ekki ósammála því. Ég vil að viðskiptamódelin séu þannig að það borgi sig að skapa hluti, skapa hugverk af öllum tegundum. En þegar við nálgumst fyrirbæri út frá eðlisfræði sem á einfaldlega ekki við það fyrirbæri búum við til flækjur og úr því verða skrýtnir hlutir, eins og það sem mér finnst mjög skrýtið, þ.e. að höfundaréttur erfist, að afkvæmi fái tekjur af verkum foreldris síns eftir að foreldri er látið. Mér finnst það stórfurðulegt og ég átta mig ekki á því hvaða sanngirnissjónarmið eiga að vera þar að baki. Ég held að slíkar hugmyndir komi til og festist í sessi vegna þess að höfundaréttur og umhverfi hans flækist (Forseti hringir.) með tímanum þegar fólk fer að reyna að (Gripið fram í.) takast á við svona (Forseti hringir.) — virðulegi forseti. Ég verð að klára ræðuna hér sökum tímaleysis.