151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[15:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, en frumvarpið var samið í heilbrigðisráðuneytinu.

Markmið þess er að skapa lagaramma um það verklag sem viðhaft er á heilbrigðisstofnunum hér á landi þegar kemur að atvikum þar sem gripið er til þvingana, valdbeitingar eða annars konar inngripa í sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela m.a. í sér það grundvallaratriði sem bann við beitingu nauðungar er, ný ákvæði um skilgreiningu nauðungar og fjarvöktunar, skilyrði sem þurfa að vera til staðar ef læknir tekur ákvörðun um að beita nauðung til að tryggja öryggi sjúklinga og fjarvöktunar auk málsmeðferðarreglna sem fylgja þarf við og í kjölfar beitingar slíkra inngripa, þar með talið skráningarskyldu tilvika, kæruheimilda og réttar til að bera mál undir dómstóla.

Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018. Eftirlitsheimsóknin fór fram á grundvelli svonefnds OPCAT-eftirlits sem felst í óháðum eftirlitsheimsóknum umboðsmanns á staði þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Með OPCAT er vísað til valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með frumvarpinu er einnig brugðist við athugasemdum frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum. Nefndin hefur ítrekað bent á skort á skýrum lagaramma er viðkemur beitingu hvers kyns nauðungar á heilbrigðisstofnunum hér á landi, ekki síst til að draga úr hættunni á beitingu ómannúðlegrar meðferðar.

Með frumvarpinu stendur ekki til að auka við úrræði til að beita sjúklinga nauðung heldur er ætlunin að lögfesta skýrar reglur með það fyrir augum að tryggja betur réttindi sjúklinga. Verði frumvarpið að lögum skulu heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra sem endranær forðast að beita sjúklinga hvers kyns nauðung og ekki grípa til slíkra ráðstafana nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga.

Virðulegur forseti. Í ljósi framlagningar þessa frumvarps til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga tel ég rétt að nefna tvennt sem tengist efni frumvarpsins. Í fyrsta lagi var á Alþingi þann 19. júní 2019 samþykkt þingsályktunartillaga, nr. 41/149, þess efnis að fara skyldi fram heildarendurskoðun á lögræðislögum, nr. 71/1997, og var sérnefnd þingmanna kosin til að fara í það verkefni. Þingmannanefndinni er falið víðtækt verkefni í þingsályktuninni umfram það að endurskoða lögræðislögin í heild en nefndinni var einnig falið að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Þess skal getið að við vinnu frumvarpsins í heilbrigðisráðuneytinu sem hér er til umfjöllunar var haft samráð við formann og starfsmann umræddrar þingmannanefndar.

Í öðru lagi er rétt að geta þess að ég skipaði starfshóp 30. júlí 2019 til að gera tillögur að útfærslu á 28. gr. lögræðislaga sem kveður á um heimild heilbrigðisráðherra til að setja nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð. Í starfshópinn skipaði ég lögfræðing með sérþekkingu á mannréttindamálum, geðlækni, félagsráðgjafa og fulltrúa Geðhjálpar. Hópurinn skilaði skýrslu og tillögum til mín í apríl 2020 en þar er m.a. fjallað um ábendingar undirnefnda Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum sem bent hefur á þessi sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að þvinguð meðferð fari einungis fram innan skilgreinds ramma þar sem kveðið er á um ýmis tilgreind viðmið og verkferla, eftirlit, endurskoðun og áfrýjunarmöguleika.

Virðulegur forseti. Víkjum þá að efni frumvarpsins. Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði kafla við gildandi lög sem fjallar um bann við nauðung þar sem tiltekið er í hvaða undantekningartilvikum verði heimilt að taka ákvörðun um beitingu nauðungar, skráningu slíkra tilvika í sjúkraskrá, málskotsrétt sjúklinga og skipun sérfræðiteymis um beitingu nauðungar. Í frumvarpinu er lagt til að bæta við gildandi lög skilgreiningum á hugtökum. Þar sem ætlunin er að bæta við kafla um bann við nauðung er þörf á því að skilgreina hvað geti talist til nauðungar í skilningi laga um réttindi sjúklinga. Nauðung getur falið í sér líkamlega valdbeitingu, t.d. í því skyni að koma í veg fyrir að sjúklingur skaði sig eða aðra, eða að sjúklingi er haldið aðskildum frá öðrum eða aðgangur sjúklings að síma takmarkaður. Einnig er lagt til að bæta við skilgreiningu á hugtakinu fjarvöktun sem felur í sér rafræna vöktun með myndavél eða hljóðnema. Hér er um að ræða umfjöllun um skilgreiningar. Lagt er til að bætt verði við lögin grein, 27. gr. b, sem bannar alla beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum. Enn fremur að fjarvöktun herbergja eða vistarvera sjúklinga verði bönnuð. Þá er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að beiting nauðungar í refsiskyni skuli jafnframt vera óheimil.

Í ákvæðum 27. gr. c er lagt til að í sérstökum einstaklingsbundnum tilvikum sé yfirlækni eða vakthafandi sérfræðilækni heimilt að taka ákvörðun um að víkja frá banni við beitingu nauðungar eða fjarvöktunar. Slík ákvörðun þarf að vera í þeim tilgangi að:

1. Koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.

2. Uppfylla grunnþarfir sjúklings, svo sem varðandi næringu, heilsu og hreinlæti.

Áður en yfirlæknir eða vakthafandi sérfræðilæknir tekur ákvörðun samkvæmt umræddri grein um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun ber honum að leita eftir afstöðu sjúklings eftir því sem við verður komið. Einnig skal tilkynna nánasta aðstandanda um ákvörðunina og, ef við á, lögráðamanni sjálfræðissvipts manns, ráðgjafa nauðungarvistaðs manns eða tilsjónarmanni manns sem vistaður er á heilbrigðisstofnun á grundvelli dóms samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Ef um er að ræða sjúkling sem er yngri en 16 ára skal auk þess liggja fyrir upplýst samþykki forsjáraðila.

Ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun skal vera skrifleg og rökstudd og skal koma skýrt fram til hvers konar aðgerða hún tekur og tilgreina gildistíma hennar. Ákvörðunin skal vera tímabundin og aldrei til lengri tíma en nauðsynlegt er, þó ekki lengri en til sex mánaða í senn. Í skriflegri ákvörðun skal greina frá þeim skilyrðum sem sett eru fyrir beitingu nauðungarinnar, svo sem hvernig skuli staðið að henni, hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanna sem henni beita og annað sem talið er mikilvægt. Sé tekin ákvörðun um líkamlega valdbeitingu skulu þeir starfsmenn sem að valdbeitingunni koma hafa sótt námskeið þess efnis.

Forstjóri viðkomandi heilbrigðisstofnunar ber ábyrgð á því að tryggt sé að sjúklingi sem sætir ákvörðun um nauðung sé leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar og eftir atvikum til að bera málið undir dómstóla. Að öðru leyti fer um málsmeðferð eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt sé að beita nauðung án undangenginnar ákvörðunar samkvæmt 27. gr. c, sem hér var farið yfir, ef slíkt er talið nauðsynlegt í því skyni að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum. Tafarlaust skal látið af nauðung þegar hættu hefur verið afstýrt eða ástand er liðið hjá. Þar sem slíkri nauðung er beitt í undantekningartilvikum skal skrá slík tilvik og gera grein fyrir tilefni þess að nauðung var beitt, hvers eðlis hún var og hvaða hagsmunir voru í húfi. Heilbrigðisstofnanir skulu senda tilvikalýsingu vegna hvers tilviks til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar samkvæmt 27. gr. i innan viku frá því að nauðung var beitt.

Lagt er til í 27. gr. f að öll tilvik þar sem sjúklingur er beittur nauðung, hvort sem henni er beitt á grundvelli undanþágu samkvæmt 27. gr. c eða í neyðartilvikum samkvæmt 27. gr. d, skuli skrá í sjúkraskrá. Sama á við um fjarvöktun.

Við skráningu skal greina frá hvernig nauðungin eða fjarvöktunin fór fram, hversu lengi hún stóð yfir, hverjir önnuðust framkvæmd hennar og önnur atriði sem þýðingu hafa, svo sem hvort meiðsl eða eignatjón hafi hlotist af.

Heilbrigðisstofnanir skulu mánaðarlega senda sérfræðiteymi samkvæmt 27. gr. i skýrslu um beitingu nauðungar eða fjarvöktunar. Upplýsingar um beitingu nauðungar í neyðartilvikum skulu sendar sérfræðiteyminu innan viku frá tilviki þegar nauðung var beitt, eins og áður kemur fram.

Í frumvarpinu er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi allt að sjö einstaklinga til fjögurra ára í senn í sérfræðiteymi um beitingu nauðungar. Það teymi skuli skipað a.m.k. einum sérfræðilækni, einum lögfræðingi sem hefur þekkingu á mannréttindamálum og fulltrúa sem hefur kynnst beitingu nauðungar af eigin raun. Lagt er til að varamenn skuli vera jafnmargir og uppfylla sömu skilyrði og aðalmenn. Minnst þrír fulltrúar úr teyminu skulu fjalla um hvert mál ásamt formanni.

Sérfræðiteymi um beitingu nauðungar mun m.a. veita ráðgjöf til heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar. Gert er ráð fyrir að sérfræðiteymi um beitingu nauðungar hafi aðsetur hjá embætti landlæknis. Heilbrigðisstofnunum er skylt að láta sérfræðiteyminu í té öll gögn máls, sem og þær upplýsingar og skýringar sem teymið telur nauðsynlegar vegna úrlausnar mála.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun sæti kæru til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar. Einnig er hægt að kæra beitingu nauðungar án þess að ákvörðun liggi til grundvallar. Þegar ákvörðun er kærð skal viðkomandi heilbrigðisstofnun senda öll gögn málsins til sérfræðiteymisins. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Sérfræðiteymið skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra berst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi. Sérfræðiteymið skal þó ávallt leitast við að kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að bera úrskurð sérfræðiteymis undir héraðsdómara í þeirri þinghá þar sem viðkomandi sjúklingur á lögheimili og skuli hann úrskurða í málinu innan viku frá því að kæra berst honum.

Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt lögum þessum sæta kæru til Landsréttar. Um málskotið fer samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

Málskot frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum þessum, nema dómari mæli svo fyrir í úrskurði.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni þess frumvarps sem hér er til umræðu. Mér finnst afar mikilvægt að halda því til haga við 1. umr. málsins hversu brýnt það er að bregðast við þeim ábendingum sem við höfum fengið frá umboðsmanni Alþingis og OPCAT vegna þess að hér er um að ræða óviðunandi lagaumgjörð eins og málin standa núna. Hér er í raun og veru verið að beita nauðung án þess að skýr lagaákvæði liggi þar til grundvallar. Það er staðreynd og það er veruleikinn.

Hér er verið að leggja til við Alþingi að kveða skýrt á um það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að heimilt sé að beita nauðung gagnvart sjúklingum á heilbrigðisstofnunum; að til séu tilteknar leiðir til að skjóta slíkum ákvörðunum áfram, að slíkar ákvarðanir skuli vera skráðar í sjúkraskrá og að grundvallarreglan, meginreglan, í íslenskri heilbrigðisþjónustu sé sú að beiting nauðungar gagnvart sjúklingum á heilbrigðisstofnunum er bönnuð og það bann nái einnig til fjarvöktunar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir frumvarpinu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.