151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu mikilvæga frumvarpi. Það er mikilvægt að við setjum skýra lagastoð undir aðgerðir eins og þær sem hér er fjallað um, þvingun og nauðung, því að sjúklingar eiga rétt. Það er grundvallarréttur sjúklinga að ráða sér sjálfir og njóta ákveðinna réttinda, sjálfsákvörðunarréttar.

Ég fór yfir þær umsagnir sem birtust í samráðsgátt. Hér er tilvitnun í umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar þar sem vitnað er í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum ásamt aðstandendum þeirra. Enn fremur snertir efni frumvarpsins starfsfólk heilbrigðisstofnana. Áform um frumvarp og drög að frumvarpi voru birt til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda. Mikið samráð var við Landspítala. Samráð var við dómsmála- og félagsmálaráðuneyti með reglulegum fundum en unnið er að löggjöf um öryggisgæslu í félagsmálaráðuneyti sem tengist efni þessa frumvarps að einhverju leyti.“

Í umsögn Geðhjálpar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Hagsmunasamtök notenda og aðstandenda voru ekki höfð með í ráðum við frumvarpsgerðina og er það miður. Því eins og segir í athugasemdinni: „Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.“ Raunverulegt samráð er ekki að setja frumvarp í samráðsgátt þegar það hefur verið skrifað heldur að skrifa það í samráði í rauntíma við þann hóp sem hefur mestra hagsmuna að gæta. Að þessu sinni eru það notendur geðþjónustu heilbrigðiskerfisins en til þeirra var ekkert leitað.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekkert var leitað til notenda þjónustunnar?