151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um samráð við notendur þjónustunnar. Ég tek eftir því að í umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar kemur það fram efnislega að þrátt fyrir að landssamtökin hefðu viljað aðra samsetningu á þeim hópi sem skrifaði frumvarpið sé jákvætt að ráðist hafi verið í vinnu við endurskoðun á þessum þvingunarúrræðum vegna þess að mikilvægt sé að skráningin sé klár. Nú sé staðan t.d. þannig að enginn viti hve oft þvingunum hafi verið beitt á deildum geðsviðs Landspítala sem sé algjörlega óásættanlegt. Í orðum Geðhjálpar í umsögn í samráðsgátt kemur þessi afstaða fram.

Ég vil líka undirstrika mikilvægi þess að í sérfræðiteymi því sem farið var yfir hér í framsögu á sæti einstaklingur sem hefur reynslu af nauðung í eigin lífi og það er afar mikilvægt. Ég treysti því að Geðhjálp komi athugasemdum sínum og ábendingum á framfæri við þinglega meðferð málsins og að hv. velferðarnefnd taki þær athugasemdir til gaumgæfilegrar skoðunar.