151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður og formaður velferðarnefndar veit að þingleg meðferð málsins er eftir. Það er Alþingi sem er löggjafinn og sem betur fer hefur það ítrekað tekist í góðu samstarfi með frumvörp sem sú sem hér stendur hefur mælt fyrir í 1. umr. að þau hafa tekið breytingum til góðs í meðferð hv. velferðarnefndar og endað í ágætri samstöðu í atkvæðagreiðslu í þingsal. En ég vil hins vegar segja að eins og fram kemur voru áformin og drög að frumvarpi birt á samráðsgátt stjórnvalda þar sem Geðhjálp sendi inn umsögn og benti á að hagsmunasamtök notenda hefðu ekki verið með í ráðum við frumvarpsgerðina og töldu það miður. En ég vil geta þess að við vinnslu frumvarpsins var rætt við formann Geðhjálpar og drög að frumvarpi voru send samtökunum áður en málið var sent í samráðsgátt.