151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna.

411. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna. Ég hef svo sem lagt þetta mál fyrir nokkrum sinnum áður, á 149. og 150. löggjafarþingi, en sambærileg tillaga var lögð fram af Ögmundi Jónassyni á 145. og 144. löggjafarþingi. Þetta er því í raun í fimmta skiptið sem þessi tillaga kemur fram í einhverri mynd. Tillagan er að mestu óbreytt frá fyrstu framlagningu en greinargerðin hefur verið lítillega uppfærð og fylgiskjali með áskorun frá UNPA Campaign hefur verið bætt við.

Ég ætla svo sem ekki að lesa alla greinargerðina enda er ég búinn að lesa hana tvívegis áður og ég held að hv. þingmenn geti kynnt sér hana. Ef hún er óljós er hægt að kynna sér fyrri ræður mínar um málið. Grundvallaratriðið er að þörf er á meiri alþjóðasamvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar eru þegar upp er staðið eina stofnunin á heimsvísu sem nær yfir næstum því öll lönd. Þörf er á meiri samvinnu á þeim skala og mikilvægt er að auka lýðræðislega aðkomu. Svo að ég lesi úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þær raddir heyrast nú æ oftar að leitað skuli leiða til að taka örlagaríkar ákvarðanir í nafni Sameinuðu þjóðanna með lýðræðislegri hætti en nú er gert. Þykir mörgum of mikil völd liggja hjá öryggisráðinu þar sem fimm ríki, Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland og Frakkland, hafa neitunarvald.“

Þetta er ákveðið lykilatriði. Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar á sínum tíma var verið að reyna að búa til einhvers konar jafnvægi milli mismunandi þátta, m.a. valds og eðlis stórveldanna á þeim tíma. Það var barn síns tíma og er nauðsynlegt að fara að uppfæra það. Lengi er búið að leita leiða til að höggva á hnútinn með því að minnka vægi öryggisráðsins en það er alveg ljóst að öryggisráðið mun ekki sleppa þeim völdum sem það hefur fyrr en kominn er annar vettvangur fyrir sambærilega valdbeitingu. Það er algerlega ljóst að þegar land eins og Kína, með 1,5 milljarða íbúa, er látið hafa jafnmörg atkvæði í allsherjarþinginu og land eins og t.d. Túvalú — ég man nú ekki íbúafjöldann þar en hann er í kringum kannski 30.000–40.000 manns — er ákveðið ójafnvægi og misrétti og í rauninni lýðræðisbrestur þar á milli. Ekki er óþekkt að m.a. í lýðræðisríkjum þar sem er efri og neðri deild þinga að neðri deildin sé í einhvers konar hlutfalli við íbúafjölda á hverju svæði, í bandaríkska þinginu er efri deildin, öldungadeildin, t.d. með tvö sæti per ríki. Það býr líka til ákveðinn jöfnuð milli landfræðilegra aðstæðna þó svo að það hafi líka verið gagnrýnt.

Með því að fara út í þetta værum við í rauninni að segja að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna yrði nokkurs konar efri deild þar sem hvert land hefði eitt atkvæði eins og er í dag en lýðræðislega kjörin neðri deild myndi hafa ákveðið vægi og geta unnið á ýmsa vegu í beinna samhengi við íbúana á hverjum stað. Nákvæmlega hvað þetta myndi fela í sér er ágætisviðfangsefni. Til er ágæt bók sem heitir, ef mig misminnir ekki, A World Parliament eða Heimsþing eftir Andreas Bummel. Sú bók fer nokkuð vel yfir helstu álitaefni og ástæður fyrir því að þetta sé yfir höfuð eitthvað sem er þess virði að skoða.

Þá gæti einhver spurt: Af hverju ætti land eins og Ísland eða Alþingi Íslands að skipta sér af svona hugmyndum? Jú, svarið er nokkurn veginn það að byggja þarf upp víðtækan stuðning við svona hugmynd til að hún geti átt upp á pallborðið. Í dag hafa töluvert margir þingmenn úti um allan heim stutt við hana, m.a. þó nokkuð margir núverandi og fyrrverandi alþingismenn. Fjöldinn allur af frjálsum félagasamtökum og alveg ótrúlega margir aðilar af ýmsu tagi hafa stutt þetta en það vantar að þjóðþingin sjái gildið sem svona þing myndi hafa og sýni svolítinn áhuga, kannski ekki síst í kjölfar Covid og með hliðsjón af vaxandi alþjóðlegum vandamálum í lífríki jarðar, loftslagsbreytingum og álíka. Við erum á einni jörð, á einni plánetu, við erum að nálgast níu milljarða og við þurfum að efla samtakamátt okkar og efla lýðræðislega getu okkar til að leysa úr stórum vandamálum sem ná yfir alla heimsbyggðina. Ef við byggjum ekki upp þá getu er hætt við því að næsta stóra vandamál sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir verði eingöngu leyst í bakherbergjum þar sem þjóðarleiðtogar spila pólitíska leiki eins og hefur því miður oft verið tilfellið. Þó svo að það hafi virkað hingað til held ég að ekki myndi saka að hafa örlítið alþjóðlegt aðhald í lýðræðislegu kerfi til að við gætum alla vega aukið líkurnar á því að niðurstaðan yrði góð.