151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að við séum nokkuð sammála um tilganginn. En mig langar til að beina annarri spurningu til hv. þingmanns af því að hann talar um að honum finnist ekki rétt að leggja refsingar við ákveðinni tjáningu. Samt erum við með í XXV. kafla almennra hegningarlaga refsingar við hótunum og hatursorðræðu. Ég vil gjarnan fá að vita það og hvort hv. þingmaður sé þá andsnúinn refsingum í almennum hegningarlögum við hótunum og hatursorðræðu. Mig langar líka til þess að fá fram hjá hv. þingmanni, vegna þess að hann er hugsi yfir því að frumvarpið muni valda meiri skaða en hitt, þ.e. að refsing samkvæmt almennum hegningarlögum við afneitun á helförinni muni valda meiri skaða en hitt, hvernig við eigum að bregðast við afneitun á helförinni og sömuleiðis vegna þess að honum er tíðrætt um að við megum ekki hefta tjáningu með einhverjum hætti og vísar þar til AFD-stjórnmálaflokksins í Þýskalandi, en fregnir bárust frá Þýskalandi í dag að þýskar leyniþjónustustofnanir eru að fylgjast með félögum í AFD þar sem aðgerðir þeirra kunni að vera ógnun við lýðræðið. Það þýðir að símar þeirra kunna að vera hleraðir og fylgst er með pólitískum afskiptum þeirra á netinu, þannig að í fyrsta skipti frá síðari heimsstyrjöldinni er þýskur stjórnmálaflokkur settur undir eftirlit leyniþjónustunnar þar í landi. Telur þá hv. þingmaður þessar aðgerðir og ákvarðanir ríkisstjórnar Þýskalands varðandi AFD, en sá flokkur hefur verið skilgreindur sem möguleg öfgahreyfing með sínum hættulegu afleiðingum, vera vitlausar eða rangar? Ég óska eftir að hv. þingmaður svari líka fyrri hluta spurninga minna.