151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

hlutafélög.

472. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þetta er enn ein mjög einfalda breytingin. Við 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Engin gjaldtaka skal vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi, 149. og 148. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju með breytingum í ljósi nýlegrar lagasetningar um ársreikningaskrá.

Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar hlutafélagaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skránni og að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr henni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.

Frumvarp til laga sambærilegt þessu er varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá var samþykkt á Alþingi á 146. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 64/2017. Fólu lögin í sér að veita almenningi aðgang að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Hér er lagt til að gögn sem tengjast þeim sem er að finna í fyrirtækjaskrá verði gerð aðgengileg á sama hátt.

Sú lagasetning sem hæstv. ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar lagði fram um ársreikningaskrá er sambærileg þessu. Þegar málið klárast er því búið að klára þessa þrenningu, fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá, sem geymir upplýsingar sem varða fyrirtæki og starfsemi þeirra og er aðgengileg en einungis gegn greiðslu. Það hefur valdið ýmsum vandamálum og kostnaði, sérstaklega fyrir fjölmiðla sem reyna að finna út hver tengsl fyrirtækja eru. Miðað við hvernig mörg íslensk fyrirtæki hafa verið sett saman í gegnum alls konar eignarhaldsfélög fram og til baka þá hefur uppsetningin þurft að vera mjög víðtæk. Sá fréttaflutningur kostar einfaldlega of mikinn pening miðað við þá fjármuni sem fjölmiðlar hafa úr að spila og hvað þá almenningur sem getur nýtt sér þetta fyrir forvitnissakir, en einnig til að ákveða við hvaða aðila viðkomandi vill eiga viðskipti. Ef við leitum að fyrirtæki til að eiga viðskipti við viljum við síður eiga viðskipti við einhvern sem er t.d. með sögu um kennitöluflakk. Gagnsæi er lykilatriði í því t.d. að uppræta kennitöluflakk. Þess vegna vonast ég til að síðasti hluti þessarar þrenningar verði kláraður og við munum búa við miklu betri aðstæður á komandi árum.