151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt, eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar, að það ríki trúnaður og að menn geti treyst því að það sem þeir segja á nefndarfundum verði ekki borið á torg. Á sama hátt er afar mikilvægt að þingmenn geti rækt eftirlitsskyldur sínar. Heimildir þingmanna til þess og til að ræða efnislega um mál sem eru rædd á fundum eru ríkulegar og það er langur vegur á milli þess að rækja þær skyldur og að rjúfa trúnað við þá gesti sem kunna að koma á fundi. Ég lít ekki svo á að hér sé um einhverja árás af hálfu stjórnvalda að ræða, síður en svo. Það er í raun miklu fremur verið að árétta að til þess að þingnefndir geti sinnt hlutverki sínu verði þeir sem koma fyrir nefndina, oft og tíðum með viðkvæmar upplýsingar, að geta treyst því að þær leki ekki út.