151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Já, það getur stundum verið vandlifað, en það verður að segjast eins og er að það virðist vera svolítil tilhneiging hjá stjórnarliðum að taka það mjög óstinnt upp ef minni hlutinn leyfir sér að „tala pólitík“ og leyfir sér að nota upplýsingar í pólitískum tilgangi. Það virðist allt í einu vera orðið einhvers konar óþokkabragð af hálfu minni hlutans. Það er líka orðið vandlifað ef þingmenn mega ekki draga ályktanir af því sem fram fer á nefndarfundum og tjá þær ályktanir opinberlega. Það er alveg ljóst að það gilda mjög strangar reglur um trúnað, en það eru reglur sem þarf að virkja ef gestir nefndarinnar eða nefndin sjálf vill viðhafa trúnað um tiltekin atriði sem fram koma á nefndarfundi. Það er mjög mikilvægt að menn hafi í huga að það þarf sérstaklega að kveða á um slíkan fortakslausan trúnað og það hefur ekki verið gert í dæmum sem hér hafa verið nefnd.