151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af þessari tangarsókn gegn eftirlitshlutverki Alþingis sem er í gangi þessa dagana og ég vona að virðulegur forseti deili þeim áhyggjum með mér. Ég vil vitna hér til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem dylgja að því að gestir nefndarinnar geti ekki treyst því að ákvæði þingskapa um trúnað haldi. Þetta er rangt. Þetta er ósatt. Þetta grefur undan trúverðugleika Alþingis og nefndar sem á að hafa eftirlit með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Er varðstaða um ráðherra Sjálfstæðisflokksins virkilega þess virði? Er ekki of dýru verði keypt að grafa undan Alþingi til að verja Sjálfstæðisflokkinn þeim skít sem hann drullar sjálfur upp?