151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru höfð uppi stór orð, sýnist mér. Ég verð að segja að það er augljós túlkunaratriði hér í gangi miðað við það að stjórnarandstaðan telur að ekki hafi verið framin nein trúnaðarbrot á meðan við, mörg hver okkar a.m.k., teljum að svo hafi verið. Það er nefnilega mikilvægt að gestir geti búið við það að þeirra frásagnir séu virtar og trúnaði haldið yfir þeim nema þeir séu sérstaklega beðnir um það. Ég verð að benda á það sá ráðherra sem hér er verið að gagnrýna, hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, er ítrekað hér til svara í þinginu og hefur verið. Það hafa gefist fjölmörg færi á því að spyrja um þessi mál. Það eitt og sér ætti ekki að vera flókið, að fá svör um eitthvað sem fólk telur að eigi erindi við almenning. En það ber að fara með upplýsingar, á viðkvæmum tímum eins og nú eru og í þessum málum sem um er rætt, vandlega. (RBB: Á viðkvæmum tímum?) Eru ekki Covid-tímar, eru það ekki viðkvæmir tímar sem (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan er sífellt að vitna í? [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að róa sig.)

Hv. þingmenn (Forseti hringir.) hafa ítrekað nota þennan stól til að segja að þeirra störf séu með (Forseti hringir.) þeim hætti að þeir geti ekki tjáð sig. Það er bara rangt.