151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

um fundarstjórn.

[13:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði að það ætti ekki að vera erfitt eða flókið að kalla eftir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum. Nei, það ætti ekki að vera það. En það er stundum erfitt að fá svör við efnislegum spurningum. Við skulum einbeita okkur að því að ræða kjarnann hérna en ekki hismið. Hér er verið að ræða um ummæli við fjölmiðil þar sem með almennum hætti var sagt að komið hefði fram að hluti sveitarfélaga landsins væri að nýta fé sem ætti að renna til reksturs hjúkrunarheimila í eitthvað annað en hjúkrunarheimili. Það er með öðrum orðum verið að ýja að því að það sé verið að nota opinbert fé af hálfu sveitarfélaga með grunsamlegum og óeðlilegum hætti. Eigum við ekki að ræða það? Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í einum af þessum sveitarfélögum finnst mér bara ömurlegt að sitja undir því eftir að hafa tekið þátt í afgreiðslu ár eftir ár að borga af öðrum hlutum af útsvarinu með hjúkrunarheimilum sem hafa verið vanfjármögnuð, og að það skuli ekki vera rætt. (Forseti hringir.) Ættu ekki þingmenn, burt séð frá því hvað þeim finnst um þessi ummæli hv. þingkonu Helgu Völu Helgadóttur, (Forseti hringir.) að vera að ræða þessar ásakanir? Ég held það.