151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Aftur um þessa áréttingu forseta til formanna og nefndarmanna í fastanefndum Alþingis. Ég velti fyrir mér tilefni hennar. Hvert er það? Er það að svara þessum málum um símtöl dómsmálaráðherra og misnotkun á fjárheimildum? Í lok bréfsins segir að óskað sé eftir því að formenn fastanefnda fari yfir téðar trúnaðarreglur með nefndarmönnum sínum og hvetji þá til að hafa þær í heiðri. Það var gert í hv. fjárlaganefnd á einni mínútu eða svo. Það er ekkert sem segir mér að lokinni yfirferð á þessari áréttingu í nefndinni hvort eitthvert tilefni sé til að bregðast við á þennan hátt vegna þeirra mála sem hér eru í gangi. Er hæstv. forseti að segja að þessi tvö mál og hvernig til þeirra var stofnað séu tilefni til þess að ræða um trúnað, hvort um trúnaðarbrot hafi verið að ræða eða ekki?