151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

launamunur kynjanna.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka mikilvægt mál hér upp í fyrirspurnatíma. Ég vænti þess að þó að hv. þingmaður hafi getið um það að ég hringdi bjöllu fyrir jafnrétti í Kauphöllinni, þá telji hann það ekki mitt eina framlag til jafnréttismála, því að að þeim hefur svo sannarlega verið unnið á þessu kjörtímabili með endurskoðun jafnréttislaga, nýjum lögum um kynrænt sjálfræði, nýrri forvarnaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og misrétti og kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sem nú er að fara af stað. Risastórt mál sem verður vonandi til að eyða þeirri meinsemd í samfélagi okkar. Ég minni líka á þau frumvörp sem dómsmálaráðherra hefur verið með hér í þinginu um umsáturseinelti, kynferðislega friðhelgi, sem eru mál sem snúast um að við getum upprætt þessa meinsemd.

Hv. þingmaður spyr síðan um hið kerfisbundna launamisrétti, sem vissulega er til staðar í samfélagi okkar, og vitnar í Tekjusöguna, sem er raunar verkefni þessarar ríkisstjórnar og hefur verið mikilvægt tæki til að átta okkur betur á launamun í samfélaginu, raunverulegum ráðstöfunartekjum ólíkra hópa þar sem fleira kemur fram, m.a. að tekjur fólks úti á landi eru að jafnaði töluvert lægri en tekjur fólks hér á höfuðborgarsvæðinu, sem er annað mál sem við ættum líka að vera að ræða þegar við tölum um jöfnuð í samfélaginu.

Sá starfshópur sem er starfandi, og hv. þingmaður vitnar í, er hópur sem settur var á laggirnar í tengslum við undirritun kjarasamninga ríkisins og BSRB. Ég á von á því að þær tillögur muni liggja fyrir í vor. Ég hef væntingar til þess, af því að hv. þingmaður spyr um afstöðu mína, að þar verði lagðar fram raunhæfar tillögur um það hvernig við getum endurmetið verðmætamat á störfum kvenna, því að það er það sem sá starfshópur snýst um. Jafnlaunavottunin, sem við höfum haft umsjón með að innleiða og sú löggjöf, tekur nefnilega ekki til verðmætamatsins í samfélaginu heldur eingöngu launakerfisins innan hvers vinnustaðar. Þetta tel ég vera stærsta verkefnið núna þegar kemur að kynbundnum launamun. Ég get farið nánar yfir það í síðara svari hvernig ég sé fyrir mér að unnt verði að endurskoða þetta verðmætamat.