151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

þróun verðbólgu.

[14:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin og ég er alveg sammála honum. Þeir sem fá 2,5 milljónir í mánaðarlaun fá 370.000 kr. hækkun og 3 milljónir í eingreiðslu. Ég er alveg sammála, það hlýtur að hafa gífurleg áhrif á verðbólgu og er eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af. En myndi ráðherra greiða atkvæði gegn frumvarpi Flokks fólksins um afnám verðtryggðra húsnæðislána í eitt skipti fyrir öll? Þeir sem eru með verðtryggðu húsnæðislánin eru þeir sem hafa það verst í okkar samfélagi. Þeir eru með þessi lán til að vera með hagstæðari greiðslubyrði. Það er fólkið sem tekur þessi lán og þarf að taka þau.

Síðan er það hin spurningin: Finnst hæstv. ráðherra 3,6% hækkun almannatrygginga eðlileg? Er ekki kominn tími til að spýta í og setja fé í almannatryggingar strax þannig að fólk þurfi ekki að herða sultarólina? Nú er 4,3% verðbólga fram undan, og 3,6% hækkunin var fyrir síðasta ár. (Forseti hringir.) Nú hlýtur að þurfa að gera eitthvað fyrir þessi breiðu bök sem fengu ekki krónu út úr Covid.