151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

jafnréttismál.

[14:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Eins og ég fór yfir áðan er kerfið okkar þannig að hægt er að skjóta úrskurði kærunefndar jafnréttismála til dómstóla til þess að fá úr því skorið hvort dómstólar staðfesti þann úrskurð. Gert er ráð fyrir því í lögunum, bæði eins og þau voru og eins og þau eru núna eftir að Alþingi lauk við endurskoðun þeirra, og sömuleiðis er gert ráð fyrir því að áfram sé hægt að leita til æðra dómstigs ef ágreiningur er um þann dóm sem fellur í héraði. Það er sá réttur sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur kosið að nýta í þessu tilfelli.

Hv. þingmaður spyr mig: Hef ég áhyggjur af þessu, að þetta fæli fólk frá því að leita réttar síns? Ja, mér finnst að við þurfum að rýna þetta kerfi og það gerði ég þegar ég lagði það til við þingið í haust að málsmeðferð þessara mála, stjórnsýslu jafnréttismála, yrði breytt þannig að ef höfðað væri ógildingarmál væri það ekki eingöngu gagnvart einstaklingnum heldur gagnvart kærunefndinni sjálfri, að kærunefndin yrði aðili máls. Af hverju er sú breyting mikilvæg? Þá er það kærunefndin sem stendur fyrir máli sínu gagnvart dómstólum. Það tel ég tryggja að einstaklingar skirrist ekki við að leita réttar síns því það má ekki vera svo. Einstaklingar verða að geta leitað réttar síns. Til þess erum við með þetta kerfi.

Hv. þingmaður spyr: Mun ég beita mér fyrir því að þessu máli verði flýtt af hálfu Landsréttar? Ég hafði ekki séð það fyrir mér, ég hafði ekki velt því fyrir mér fyrr en hv. þingmaður nefndi það í fyrirspurn sinni. Ég hef satt að segja aldrei beitt mér fyrir flýtingu mála. Ég tel það vera dómstóla að meta það hverju sinni. Ég hafði satt að segja ekki velt því fyrir mér fyrir þennan fyrirspurnatíma og sé það ekki endilega fyrir mér eftir fyrirspurn hv. þingmanns.